Fara í efni
Mannlíf

Ný þáttaröð hefst á N4: Húsin í bænum

Ný þáttaröð hefst á N4: Húsin í bænum

Ný þáttaröð hefur göngu sína á sjónvarpsstöðinni N4 í kvöld. Hún kallast Húsin í bænum, og er fyrsti þátturinn á dagskrá klukkan 20.30.

„Öll hús eiga sér sögu og geyma minningar og þessar staðreyndir reynum við Dagný Hulda Valbergsdóttir tökumaður og klippari að fanga. Í hverjum þætti fáum við fjóra einstaklinga til þess að sýna okkur hús og segja sögur eða rifja upp minningar. Fyrsti þátturinn fer í loftið í kvöld og við byrjum á húsarölti á Akureyri,“ segir Karl Eskil Pálsson, annar umsjónarmanna þáttanna.

„Það hefur sýnt sig að fólk hefur gaman af slíkum þáttum og vonandi fræðist fólk líka um húsin sem sýnd verða. Sjálfur vissi ég svo sem eitthvað um Amaróhúsið sem verður tekið til umfjöllunar í þættinum í kvöld en ekki vissi ég að þar var líklega fyrsti nammibar landsins. Og Dagný Hulda hafði ekki áður heyrt söguna af því þegar kirkjuklukkum Akureyrarkirkju var hringt í fyrsta sinn og íbúarnir sérstaklega varaðir við í bæjarblöðunum," segir Karl Eskil við Akureyri.net.

Smellið hér til að horfa á kynningarstiklu um þáttinn.