Fara í efni
Mannlíf

Ný bók Snæfríðar um 33 gönguleiðir á Tenerife

Gönguleiðirnar í bókinni eru afar fjölbreyttar og eru allt frá 2 km upp í 17 km langar. 

Akureyrska fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir hefur gefið út handbók með 33 gönguleiðum á Tenerife. Um rafbók er að ræða en bókin inniheldur gönguleiðir í mismunandi erfiðleikastigum út um alla eyjuna.

Snæfríður á göngu á Anaga skaganum með þorpið Las Carboneras í baksýn.

„Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi því leiðirnar í bókinni eru mjög blandaðar, bæði þægilegar leiðir um skóglendi eða meðfram sjónum eða meira krefjandi göngur upp á fjöll með góðri hækkun. Allar leiðirnar eiga það þó sameiginlegt að það er alltaf eitthvað skemmtilegt að skoða og upplifa á leiðinni,“ segir Snæfríður við Akureyri.net.

Snæfríður og fjölskylda hennar hafa gengið allar leiðirnar í bókinni á undanförnum fimm árum.

Undanfarin fimm ár hefur Snæfríður gengið allar leiðir í bókinni ásamt fjölskyldu sinni. Sumar leiðirnar hafa komist í uppáhald og þær hefur fjölskyldan gengið margoft á meðan aðrar hafa aðeins verið gengnar einu sinni þar sem þær hafi verið gassalegri, eins og hún orðar það. „Tenerife er afar fjölbreytt eyja þó lítil sé og það er það sem er svo frábært við hana. Ég vil sjálf helst ganga leiðir sem eru um það bil 5 til 12 kílómetra langar, og helst leiðir þar sem hægt er að fá sér mat og drykk á leiðarenda. Persónulega held ég mest upp á leiðir þar sem sést í sjóinn, hvort sem þær eru meðfram strandlengjunni eða uppi á fjöllum. Þá finnst mér líka gaman að ganga innan um suðrænan gróður eins og pálmatré.“

Eins og áður segir er bókin rafbók en í henni eru fjölmargir tenglar á áhugaverðar vefsíður, ljósmyndir af leiðunum og kort. Bókina má nálgast inn á heimasíðu Snæfríðar www.lifiderferdalag.is/shop