Fara í efni
Mannlíf

„Norðlenskar raddir verða að heyrast“

Halldór Kristinn Harðarson og Davíð Rúnar Gunnarsson í hljóðveri PSA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hlaðvarp verður sífellt vinsælli miðill hérlendis sem annars staðar í veröldinni. Segja má að poddköst, eins og fyrirbærið er gjarnan kallað hér á Fróni, upp á útlensku, hafi nánast sprottið upp eins og gorkúlur á síðustu misserum. Í gær var formlega tekin í notkun alvöru aðstaða á Akureyri til að taka upp hlaðvarpsþætti.

„Það er gaman að vera loksins búnir að opna,“ sagði Halldór Kristinn Harðarson við Akureyri.net í gær, en hann stendur að Podcast stúdíó Akureyrar, ásamt Davíð Rúnari Gunnassyni. Nokkrir eru þegar farnir að taka upp þætti hjá þeim og fleiri hefjast handa á næstu dögum.

Þeir hófu undirbúning í haust. Segjast hafa orðið varir við mikinn áhuga og þess vegna ákveðið að kýla á að setja upp hljóðverið. Þeir eru með gæða græjur og hjálpa fólki fyrstu skrefin, sé þess óskað.

„Þetta hefur verið gríðarlega vinsælt fyrir sunnan, nokkrir hafa verið að gera þætti á Akureyri og margir fleiri sýnt því áhuga,“ sagði Davíð Rúnar í gær, og bætir við að nú orðið sé nauðsynlegt að bjóða upp á sem mest gæði í hljóðvinnslu og þess háttar. „Úrvalið er orðið svo rosalega mikið að fólk hlustar ekki á svona þætti lengur nema gæðin séu mikil,“ segir hann. 

„Við Dabbi viljum að raddir Norðlendinga fái að heyrast; norðlenskar raddir verða að heyrast. Þess vegna fórum við út í þetta og vildum bjóða upp á fyrirmyndar aðstöðu,“ segir Halldór Kristinn.

„Podcast er orðinn einn stærsti auglýsingamiðill í heiminum í dag og fer bara stækkandi, þannig að möguleikarnir eru miklir,“ segir Halldór og hvetur áhugasama til að hafa samband við þá. Vilji einhverja feta þessa braut leigir hann hljóðverið af þeim félögum í ákveðinn tíma, til dæmis klukkustund, þar sem þátturinn er tekinn upp. „Það er svo skemmtilegt að hægt er að gera podcast um allt!“ segir Halldór Kristinn.

Podcast stúdíói Akureyrar er til húsa í Glerárgötu 24 á 2. hæð. Smelltu hér til að skoða heimasíðuna.