Fara í efni
Mannlíf

Neyddi sjálfa sig út í fréttamannsstarfið

Anna hlakkar til að koma aftur heim í eigin íbúð í Berlín en á meðan á dvöl fjölskyldunnar á Akureyri hefur staðið hafa þau búið víða. Meðal annars í húsnæði þar sem þau pössuðu hund fyrir eigendurnar. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Anna Þorbjörg Jónasdóttir birtist reglulega í sjónvarpsfréttum RÚV þar sem hún segir landsmönnum fréttir frá Norðurlandi. Fréttamannsstarfið er þó aðeins tímabundið og fljótlega hverfur Anna af skjánum til að sinna eigin fyrirtækjarekstri í Berlín.

„Ég veit að margir sem þekkja mig urðu hissa að sjá mig á sjónvarpsskjánum því ég var langt fram eftir aldri ofboðslega feimin og alls enginn kandídat í sjónvarpsfréttakonu. Ég svaraði t.d. aldrei spurningum af fyrra bragði í tímum í háskólanum og hélt mig almennt til hlés,” segir Anna aðspurð út í það hvernig það sé að vera allt í einu orðin þekkt sjónvarpsandlit. Hún segir að fjölmiðlastarfið hafi lengi blundað í henni þar sem henni fannst sem hún yrði að nota mastersgráðuna sína í eitthvað, en leiðir margra samnemanda hennar úr stjórnmálafræðinni hafa legið í fjölmiðla. „Ætli ég hafi ekki líka viljað sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti þetta, þetta var box sem ég varð að tikka í. Ég er mjög stolt af því að hafa neytt mig út í þetta starf. Þá er ég ekki síður þakklát RÚV fyrir að hafa gefið mér þetta tækifæri, sem var ekki svo sjálfsagt, því ég hafði í 12 ár ekki verið á hefðbundnum vinnumarkaði.“

Bogi Ágústsson og Anna Þorbjörg í beinni útsendingu á RÚV.

Hasar í hamfaraviku á Norðurlandi

Anna fékk sannkallaða eldskírn á RÚV. Hún var ekki búin að vera mánuð í starfi þegar hamfaravika reið yfir Norðurland með tilheyrandi hasar á fréttastofunni. Fyrst ber að nefna aurskriðu í Varmahlíð, síðan vatnavexti í ám í Eyjafirði og í Fnjóskadal sem ollu miklu tjóni og svo dramatískt hoppukastala slys á Akureyri.

„Það var allt á hundrað. Ég var nýbyrjuð og hélt að þetta væri bara eðlilegt ástand. Ég viðurkenni að þarna hafði ég smá áhyggjur af því hvað ég væri eiginlega búin að koma mér út í,” segir Anna og hlær að minningunni. Segist hún seint eiga eftir að gleyma beinni útsendingu þessa umræddu hamfaraviku þar sem brunað var beint úr frétt um fyrsta slátt sumars í beina útsendingu um aurskriðuna í Varmahlíð. Hún var sett í loftið svo gott sem algjörlega óundirbúin enda rétt komin á staðinn nokkrum mínútum fyrir fréttatímann. Allt bjargaðist þó og Anna andaði léttar þegar hún sá að það væri ekki alltaf svona mikill hasar í starfinu.

Anna er fædd og uppalin á Akureyri en hefur búið í Berlín undanfarin ár. Atvinnuleysi í kjölfar Covid leiddi hana í fréttamannastarf á RÚV Akureyri.

Of viðkvæm fyrir fréttamennskuna

Eftir ár í starfi fréttamanns á RÚV Akureyri segist hún reynslunni ríkari en hefur áttað sig á því að fréttamannsstarfið á ekki við hana. Segist hún vera of viðkvæm til að höndla reiði og særindi sem stundum fylgir því að stinga á kýli, og þá sé líka mikið andlegt álag fólgið í því að vera alltaf á vaktinni. „Þetta hefur verið skemmtilegur tími en ég reikna með því að ég verði jafnvel enn sáttari í mínu fyrra starfi eftir þessa reynslu,” segir Anna sem snýr fljótlega til baka til Berlínar þar sem hún á og rekur fyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagningu hópferða um borgina.

Varð ástfangin af Þjóðverja

Fyrirtæki Önnu kallast Berlínur en það samanstendur af hópi kvenna sem bjóða upp á leiðsögn á íslensku um Berlín. Fyrirtækið var stofnað árið 2014 af þeim Margréti Rós Harðardóttur og Katrínu Árnadóttur (núverandi forstöðumanni markaðs- og kynningarsviðs Háskólans á Akureyri) en árið 2016 kom Anna inn í fyrirtækið sem eigandi. Hægt er að fá nánari upplýsingar um Berlínur og þjónustu og ferðir þeirra á heimasíðunni berlinur.de. Þá er á heimasíðunni einnig að finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar um Berlín sem nýtast ferðalöngum sem eru á leið til borgarinnar.

Anna er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri en þaðan lá leiðin í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Í millitíðinni tók hún eitt ár sem au pair í Danmörku og kunni svo vel við sig í Danaveldi að hún skráði sig í nám í fornleifafræði við háskólann í Árósum. Ekkert varð þó úr fornleifanáminu og eftir útskrift frá HÍ hélt hún í Háskólann í Uppsölum og lauk þar mastergráðu í alþjóðlegum stjórnmálum árið 2006. Að námi loknu fluttist hún til Reykjavíkur en á einum af börum borgarinnar kynntist hún eiginmanni sínum, Peter Foellbach. „Þetta var í júlí árið 2008. Hann var þýskur arkitekt sem í góðærinu var ráðinn í verkefni á Íslandi. En svo kom hrunið, hann missti vinnuna og fór þá út aftur.” Við tók fjarsamband á milli Önnu og Peter, en í lok árs 2009 eignaðist Anna soninn Óla Jökul og þau mæðgin fluttu til Peters í Berlín þegar Óli var rúmlega mánaðar gamall. Í dag eru þau Peter og Anna gift og eiga auk Óla Jökuls, sem er 12 ára í dag, soninn Áka Dag sem er 10 ára gamall.

Skipuleggja ferðir um Berlín

Á fyrstu árunum í Berlín var Anna mest heima að sinna barnauppeldi en hún kenndi líka Þjóðverjum íslensku um tíma í kvöldskóla og þá tók hún þátt í því að koma á fót íslenskum skóla fyrir íslensk börn í Berlín. Svo einn daginn var Anna beðin um að leiðsegja fyrir Berlínur. „Mér fannst það fráleit hugmynd og leist ekkert á það í fyrstu því ég hef alltaf átt erfitt með það að tala fyrir framan fólk,” segir Anna. Hún lét þó tilleiðast og segir að það hafi verið mikill sigur að átta sig á því að hún gæti þetta alveg. Fór svo að Anna gerðist meðeigandi að fyrirtækinu og í dag sjá þær Margrét saman um reksturinn en auk þeirra eru þær með átta starfsmenn á sínum snærum sem taka að sér leiðsögn í ferðum fyrirtækisins. „Þjónusta okkar spurðist smám saman út og við fórum að þróa ferðirnar okkar enn frekar. Í dag þá sjáum við um alla skipulagningu fyrir hópa sem vilja koma til Berlínar í árshátíðarferðir, endurmenntunarferðir, kóraferðir o.s.frv. Við græjum allt nema flugið, “ segir Anna.

Árin 2018 og 19 var mjög mikið að gera hjá fyrirtækinu og bókanir fyrir árið 2020 litu vel út. En svo kom Covid og starfsemin lagðist í dvala. Í ljós kemur að ein ástæða þess að Anna er nú fréttamaður RÚV á Akureyri er Covid og afleiðingar þess fyrir Berlínur.

Niðurdrepandi Covidtími

„Í mars 2020 lokaði allt í Berlín. Maðurinn minn vann að heiman frá okkur en ég hafði enga vinnu því öll verkefni Berlínanna duttu upp fyrir. Öll fjölskyldan var því heima því skólinn var alveg lokaður og ég sá um alla kennslu eftir plani frá kennara. Þetta var frekar niðurdrepandi tími,” segir Anna.

Sumarið 2020 kom fjölskyldan í sumarfrí til Íslands og í þeirri ferð upplifði Anna mikið frelsi þar sem enn voru mun meiri höft í Berlín. „Til dæmis þá þurfti ég alltaf að taka persónuskilríki með mér þegar ég fór út að hlaupa þar sem íbúar Berlínar máttu ekki fara of langt frá heimilum sínum. Þá mátti fólk ekki sitja of nálægt hvort öðru í almenningsgörðunum og lögreglan var alltaf á vappi til að passa upp á það.”

Fjölskyldan fór til baka eftir sumarfríið á Íslandi en þegar Covid smitum fór aftur að fjölga þegar leið á veturinn leist Önnu ekkert á blikuna. Hún hringdi því í skólastjóra Brekkuskóla þar sem sonunum var strax reddað skólaplássi. Í janúar 2021 var öll fjölskyldan komin til Akureyrar og þar sem Berlínur voru enn með engin verkefni ákvað Anna að sækja um fréttamannsstarfið á RÚV þegar hún sá það auglýst.

Anna mælir með hjóli í Berlín. Hér er hún í hjólreiðaferð með vinum við Wannsee stöðuvatnið sem tilheyrir Berlín, en þar er gríðarstórt skóglendi er gaman að hjóla og ganga í.

Vill ekki verða gömul í Berlín

Þegar Anna flúði heimsfaraldursástandið í Berlín til Akureyrar hafði hún búið í borginni í 10 ár og var orðin samdauna ýmsu sem dvölin á Akureyri opnaði augu hennar fyrir. „Við vorum í gleðivímu yfir því hvað allt var einfalt hérna og líbó. Það er eitt það góða við Ísland. Í Þýskalandi hefði ég t.d. ekki getað hringt beint í skólastjórann og óskað eftir skólaplássi. Úti hefði þetta tekið miklu lengri tíma og hefði þurft að fara í gegnum ótal skrifstofur. Þá fannst mér allir taka svo vel á móti strákunum, bæði í skólanum og í íshokkíinu. Í Þýskalandi er allt meira vesen og fólk oft mjög dónalegt við mann. Ég hef t.d. aldrei verið kölluð heimska belja í umferðinni á Íslandi en í Þýskalandi er oft öskrað á mann.”

Það er þó margt fleira en reksturinn á Berlínum sem togar í Önnu úti og gerir það að verkum að dvölin á Akureyri verður ekki lengri að þessu sinni. Hún saknar þess að búa á sínu eigin heimili, saknar fjölbreyttrar matarmenningar, hlýs sumarverðurs, þægilegs verðlags og lífsstíls án bíls, svo fátt sé nefnt. Akureyri hefur þó vissulega ýmislegt sem vegur á móti og synirnir eru hæstánægðir á Íslandi. „Ef ég flyt til baka til Íslands þá verður það til Akureyrar því lífið hér er svo einfalt. Reykjavík er of lík Berlín og þá gæti ég allt eins búið í Berlín.” Reyndar er ekkert ef hjá Önnu og setningin ætti því frekar að vera þegar Anna flytur til baka til Íslands því hún getur ekki séð sig sem sem gamla konu í Berlín. „Nei, veistu mér finnst hræðileg tilhugsun að vera útlenska konan á elliheimilinu. Ég vil frekar fara á Hlíð og horfa á Vaðlaheiðina og Súlur út um gluggann.”

Berlínur á góðri stund í Berlín. Margrét Rós til vinstri og Anna lengst til hægri ásamt nokkrum starfsmönnum fyrirtækisins. 

Bekkjarferð í Berlín. Það er mun meira áreiti í Berlín en á Akureyri. Synir Önnu hafa verið mjög ánægðir með lífið í Brekkuskóla.