Fara í efni
Mannlíf

Nennir ekki að eldast nema fram að hádegi!

Kúabollinn séður af Steinhólnum. Ljósmyndir prýða bók Jóhannesar, flestar teknar í Svarfaðardal og sýna bæi og staðhætti. Ljósmynd: Jóhannes Sigvaldason

„Það teygist úr ellidögum mínum og eitthvað verða menn að bjástra við hvunndags – nenni hvort eð er ekki að eldast nema fram að hádegi.“

Þannig byrjar Jóhannes Sigvaldason nýja bók sína, Það er heimsendir á bak við Steinhólinn. Frásagnir af mér og öðru fólki.

Bókin skiptist í tíu meginkafla og byrjar í Svarfaðardal á heimaslóðum höfundar. Hann heimsækir alla bæi í dalnum og segir frá mönnum og málefnum.

Frá Hánefsstöðum koma „fínu frúrnar á Akureyri“ og eru þrjár talsins. Í Brautarhóli er kúnum gefið lýsi með heldur sóðalegum afleiðingum. Krummi gerir atlögu að augum Þorleifs á Hofsá.

Um Jóhann Jónsson á Búrfelli skrifar Jóhannes meðal annars: „Jói á Búrfelli var ekki áberandi í umróti daganna, fór hljótt um götu og ekki hávær þar sem menn komu saman. Gat þó verið sérstakur í frásögu og sagði einu sinni um hestinn sinn: „Hann Skjóni er gamansamur á mannamótum en svifaseinn í haga.“

Á Skeiði bjó langafi höfundar og hafa varðveist meðal ættingja frásagnir um hrikaleg skriðuföll og hrakninga heimafólks árið 1887.

Í Brekku bjuggu hjónin Klemenz Vilhjálmsson og Sigurlaug Halldórsdóttir. Þar dvaldi Jóhannes um nokkra hríð, lærði sund í Sundskálanum fyrir ofan Tjörn fyrir hádegi en hjálpaði Klemenz bónda við vorverkin eftir hádegi: „Ég minnist þess nú, á gamalsaldri, hve þægilegt var að vinna með Klemenz við girðinguna, hann lét mig að sönnu vinna en sagði mér til á lipran og notalegan máta. Þetta var í nokkurri andstöðu við það orð sem fór af Klemenz, hann var talinn skapmikill og með þolinmæði af skornum skammti. En þarna sýndi Klemenz á sér aðra hlið og þessi girðingarvinna er með notalegustu minningum frá kynnum af fólki í Svarfaðardal.“

Þannig fer Jóhannes af einum bæ á annan. Byrjar að austanverðu á Skáldalæk, fer um austurkjálka inn í Skíðadal að Dæli. Þaðan liggur leið um Svarfaðardal fram, frá Tungufelli að Hreiðarsstöðum. Þá er farið niður að vestan, frá Þverá að Syðra-Holti og síðan um Dalvíkurhrepp.

Frásögn Jóhannesar er þó ekki einskorðuð við Svarfaðardal. Hann bregður sér af bæ, heimsækir meðal annars ættarbyggðir eiginkonu sinnar, Kristínar Tómasdóttur, fyrir vestan og segir frá kynnum sínum af Gísla á Hofi í Vatnsdal. „Mér þótti maðurinn og kynni við hann sérstök og notaleg þegar litið er til daga löngu liðinna,“ segir Jóhannes um Gísla á Hofi.

Loks er einstæð frásögn af manninum sem kom svo óvænt í dalinn fagra fyrir norðan og hvarf á braut án skýringa – aftur og aftur eins og stef í tónlist eftir Bach. Hann villir á sér heimildir, lætur greipar sópa um eigur Dalvíkurkirkju og fer frjálslega með fjármuni sem ekki eru hans. En alltaf kemur hann í dalinn aftur á milli þess sem hann sukkar í höfuðborginni og situr inni á Hrauninu. Svo fær hann tilboð og peninga frá útgefanda í Reykjavík um að skrifa ævisögu sína. Þá er farið norður í land. Þegar bóndinn á bænum dregur í efa að hann hafi frá nokkru að segja sem falli í kram bókakaupenda svarar gesturinn: „Þetta hélt ég nú líka, en kannski er ég alls ekki venjulegur smáþjófur, nær því að segja undarlegur smáþjófur, oftast stolið fyrir opnum tjöldum og nánast þegar þeir sem ég hef stolið frá hafa horft á. Nokkurs konar töfrabrögð.“

asdfasdfasd