Fara í efni
Mannlíf

Nemendur grunnskóla fá Fiðring frá Maríu!

María Pálsdóttir kemur víða við, en nýjasta viðfangsefni hennar slapp út af vörum hennar í Föstudagsþættinum á N4 í vikunni sem leið. Og hér er um að ræða Fiðring. Skapandi verkefni fyrir nemendur grunnskóla á Akureyri og í nágrenninu. Verkefni sem á sér hliðstæðu í Skrekk, þar sem skólar í höfuðborginni hafa um þrjátíu ára skeið unnið að hópverkefni og att kappi um besta atriðið. Úrslitakeppni Skrekks þetta árið fór fram í beinni útsendingu í Sjónvarpinu á mánudagskvöld. Skjálfti fór svo af stað í skólum á Suðurlandi síðastliðið ár.

María segir að Skjálftinn á Suðurlandi hafi ýtt við sér og hún sett sig í samband við Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur, sem hafði sett saman innleiðingarhandbók sem hún hafði gert samhliða Skjálftanum og sent sér. Síðan hefði hún samið við Heru Jónsdóttur, sem kenndi hér í Leiklistarskóla LA síðastliðinn vetur en hún hafði áður komið fram í Skrekk og verið síðar leiðbeinandi Skrekksliðs. Saman hafi þær sett upp dagskrá og áætlun og undið verkinu í gang. Sótt hafi verið um styrk til Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra og Karl Frímannsson fræðslustjóri hafi tekið afskaplega vel í hugmyndina og stutt þær stöllur. Eins hefði Menningarfélagið tekið hugmyndinni fagnandi. Allur vindur væri því seglunum og þetta allt að byrja.

Fyrsta úrslitakvöld í Hofi 4. maí

„Við ætlum að byrja núna strax eftir áramótin. Við stefnum að því að byrja með tíu skóla, grunnskólana á Akureyri og í nágrenninu, við eigum eftir að fá staðfestingu á þátttöku en þetta er allt að gerast. Hera mun halda námskeið fyrir leiðbeinendur í hverjum skóla, en leiðbeinendurnir eru fyrst og fremst nemendunum til aðstoðar en ekki stjórnendur. Nemendur velja sjálfir viðfangsefni, semja það og setja upp. Og það er ákveðið að fyrsta úrslitakvöld Fiðrings verður í Hofi 4. maí 2022. Hugsanlega verður því streymt eða tekið upp og sýnt einhvers staðar síðar, viðræður eru í gangi við RÚV, við sjáum til hvert þær leiða.“

María heldur áfram og segir að þetta sé bara hugsað sem byrjunin og þetta verði árlegur viðburður og „vonandi tekst okkur að breiða þetta út þannig að það nái yfir allan fjórðunginn. Það er svo fullt af skapandi krökkum í skólum um allt land. Og þó að hámarksfjöldi þeirra sem koma fram í hverju atriði sé 35 manns þurfa atriðin alls ekki að vera fjölmenn. Þetta mega líka vera atriði með 1-2-3 þátttakendum og litlir skólar eiga ekki að líða fyrir smæðina. Þetta er eingöngu ætlað unglingastiginu en hvort 8. 9. eða 10. bekkur tekur þátt eða allir saman er útfærsluatriði. Það á eftir að koma í ljós.“

Hvert atriði er að hámarki 6 mínútur, söngvarar verða að syngja og leikarar að tala, en leyfilegt er að hafa undirleik og slíkt á bandi. „En alltaf er hópur baksviðs og fólk sem ekki sést á sviðinu. Það er líka spennandi samkeppni um baksviðspassana,“ sagði María. Og hún sagðist sannfærð um að þessi starfsemi yrði mikils virði fyrir skólana sjálfa og sjálfsmynd þeirra, nemendahópana og ekki síður fyrir samfélagið allt.

Það verður spennandi að fylgjast með Fiðringi.