Fara í efni
Mannlíf

Natan syngur Vor í Vaglaskógi í Voice

Natan Dagur Benediktsson syngur í The Voice í Noregi annað kvöld - í fyrsta skipti í beinni útsendingu. Ljósmynd: The Voice.

Natan Dagur Benediktsson syngur í fyrsta skipti í beinni útsendingu annað kvöld í söngkeppninni The Voice á norsku sjónvarpsstöðinni TV2. Hann mun syngja lagið Vor í Vaglaskógi, sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng svo eftirminnilega með hljómsveit Ingimars Eydal á sínum tíma og hljómsveitin Kaleo gerði vinsælt aftur í nýrri útsetningu fyrir nokkrum árum.

Jónas Jónasson, sá kunni útvarpsmaður, gerði lagið en textann samdi Akureyrarskáldið Kristján frá Djúpalæk. Útgáfurnar tvær sem áður voru nefndar eru ólíkar og eftir því sem Akureyri.net kemst næst gerir Natan Dagur lagið að sínu, eins og sagt er; annað kvöld mun því hljóma útgáfa sem aldrei hefur heyrst fyrr.

Gaman er að upplýsa að Íslendingar geta kosið í keppninni annað kvöld á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar. Smellið hér til að fara inn á síðu keppninnar á vef TV2. Hægt er að kjósa þrisvar sinnum úr hverju tæki (hverri IP tölu) án þess að greiða neitt fyrir. Keppnin hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma.