Fara í efni
Mannlíf

Natan: Fékk gæsahúð að hlusta á sjálfan mig!

Natan Dagur Benediktsson hefur heldur betur slegið í gegn í norsku útgáfu The Voice. Ljósmynd: The V…
Natan Dagur Benediktsson hefur heldur betur slegið í gegn í norsku útgáfu The Voice. Ljósmynd: The Voice.

„Mér fannst ég standa mig frábærlega. Ég fékk í fyrsta skipti gæsahúð við að hlusta á sjálfan mig!“ sagði Natan Dagur Benediktsson, himinlifandi í samtali við Akureyri.net, eftir að hann tryggði sér fyrr í kvöld þátttökurétt í 16-manna úrslitum norsku útgáfu The Voice söngkeppninnar, sem sýnd er á TV2.

Þjálfarinn Ine Wroldsen þurfti að velja á milli tveggja keppenda úr eigin liði, sem háðu einvígi: Natan Dagur söng lagið Stay, sem þekkt er með söngkonunni Rihönnu, og keppinauturinn, Mads Sølnes, flutti Watermelon sugar sem Harry Styles flutti.

„Ég held ég hafi náð að sýna dálítið nýja hlið á mér á sviði, og eiginlega flutt lagið eins vel og ég get. Ég var miklu öruggari en áður,“ sagði Natan Dagur og bætti við að Mads hefði líka sungið rosalega vel að sínu mati.

Valið var væntanlega ekki auðvelt fyrir Wroldsen en niðurstaðan er sem sagt sú að Natan Dagur verður í hópi þeirra 16 sem komast í næstu umferð, þá verður fyrst sungið í beinni útsendingu og upp frá því eru það sjónvarpsáhorfendur sem kjósa um hverjir komast áfram.

Englatónn í röddinni!

Dómararnir fóru lofsamlegum orðum um Natan í kvöld sem fyrr. „Espen Lind sagði að það væri eitthvað sérstakt við röddina mína sem ekki væri hægt að horfa framhjá – einhver englatónn!“ sagði Natan, og þykir greinilega mjög vænt um ummælin.

„Annar dómari, Yosef Wolde-Mariam, sagði að ég hefði komið sér mjög á óvart í blindprufunni og með flutningnum sem sýndur var í kvöld væri ég enn að koma honum á óvart! Hann sagði að ég hefði verið einn af uppáhaldskeppendunum hans eftir blindprufuna og það hefði ekkert breyst.“

Natan Dagur kemur fram í fyrsta þættinum sem sendur verður út beint, næsta föstudagskvöld. Undirbúningur á keppnisstað í Osló hefst af krafti strax á mánudaginn. Í næsta þætti syngja aftur tveir keppendur frá hverjum dómara og annar kemst áfram.

Natan Dagur dregur ekki dul á að tilhlökkunin er mikil. „Ég er sjúklega spenntur!“

Smelltu hér til að hlýða á flutning Natans í kvöld.

Smelltu hér til að hlusta á Natan Dag þegar hann sló í gegn í fyrstu umferð The Voice í vetur.