Fara í efni
Mannlíf

Múrbrjótar fengu grasrótarverðlaun KSÍ

Forráðamenn Múrbrjóta taka við viðurkenningunni í morgun. Frá vinstri: Haukur Snær Baldursson, þjálf…
Forráðamenn Múrbrjóta taka við viðurkenningunni í morgun. Frá vinstri: Haukur Snær Baldursson, þjálfari liðsins, Þóroddur Hjaltalín, sem sæti á í varastjórn KSÍ og stjórnarmennirnir Ólafur Torfason, forstöðumaður búsetuþjónustu geðfatlaðra, og Kolbeinn Aðalsteinsson. Ljósmynd: Jón Óskar Ísleifsson.

Fótboltafélagið Múrbrjótar á Akureyri fær grasrótarverðlaun Knattspyrnusambands Íslands í ár. Tvenn slík verðlaun eru veitt, hin fá Kormákur á Hvammstanga og Hvöt á Blönduósi, fyrir öflugt samstarf í yngri flokkum drengja og stúlkna.

Fótboltafélagið Múrbrjótar hefur það að markmiði að bjóða þeim sem takast á við geðræn og félagsleg vandamál upp á fótboltaæfingar, auka þátttöku í hollri hreyfingu, efla samfélags- og félagsvitund og rjúfa einangrun fólks með því að hittast og spila fótbolta. Verkefnið, sem er á vegum velferðarsviðs Akureyrar, fór af stað árið 2015 en Fótboltafélagið Múrbrjótar var formlega stofnað árið 2018.

„Ástæðan fyrir því að við byrjuðum á þessu er sambærilegt verkefni í Reykjavík, FC Sækó. Félagsmenn þar hvöttu okkar til að stofna lið svo við gætum spilað við þá,“ segir Ólafur Torfason, forstöðumaður búsetuþjónustu geðfatlaðra hjá Akureyrarbæ og stjórnarmaður í Múrbrjótum við Akureyri.net.

Ólafur segir um 20 æfa á sumrin en færri yfir vetrartímann. „Það eru æfingar einu sinni í viku hjá okkur, KA-menn hafa leyft okkar að æfa á svæði sínu yfir sumarið, okkur að kostnaðarlausu, og á veturna æfir liðið í íþróttahúsi Naustaskóla.“

Ólafur segir verkefnið ganga vonum framar. „Hingað er allir velkomnir, geta fengið félagskap og notið þess að spila fótbolta. Við spilum fótbolta án fordóma.“

Í frétt á heimasíðu Knattspyrnusambandsins er fjallað um verðlaunin. „Á ári eins og því síðasta, þar sem auknar líkur á félagslegri einangrun voru svo sannarlega fyrir hendi, þá sönnuðu Múrbrjótar enn frekar gildi sitt, með því að bjóða okkar viðkvæmasta hópi upp á tækifæri til að rjúfa þá einangrun með fótboltaæfingum sem opnar voru öllum. Fótboltafélagið Múrbrjótar er vel að grasrótarverðlaunum KSÍ komið,“ segir á heimasíðu KSÍ.