Fara í efni
Mannlíf

Mömmur, möffins og Páll Óskar í Lystigarðinum

Viðburðurinn Mömmur og möffins verður í Lystigarðinum í dag eins og undanfarin ár um verslunarmannahelgi. Þar verða seldar bollakökur, hið vinsæla sætabrauð sem Englendingar og fleiri kalla muffins og stundum er nefnt múffur á okkar ástkæra, ylhýra tungumáli.

Viðburðurinn hefur verið fastur liður þessa helgi og allar ágóði rennur sem fyrr til fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Í fyrra söfnuðust 884.000 krónur og rann upphæðin óskipt til fæðingardeildarinnar.

Í kvöld verða svo tónleikar í Lystigarðinum, á flötinni ofan við veitingastaðinn LYST, þar sem fram koma Páll Óskar, Anton Líni og Villi Vandræðaskáld. Tónleikarnir hefjast kl. 20.30.

Nokkrir tónleikar verða hér og þar á veitinga- og kaffihúsum í dag og í kvöld. Jónas Sig og hljómsveit skemmta svo á Græna hattinum í kvöld og í Sjallanum sjá Páll Óskar og Emmsjé Gauti um að halda uppi stuðinu.

Vert er að geta þess að leikhópurinn Lotta sýnir fjölskyldusýninguna Gilitrutt á MA túninu fyrir ofan Lystigarðinn í dag klukkan 12.00. Gilitrutt er sýning sem er hugsuð fyrir alla aldurshópa og eiga þar fullorðnir jafnt sem börn að geta skemmt sér saman, að því er segir í tilkynningu. Frítt fyrir 2ja ára og yngri. Miðasala á tix.is og á staðnum.

Smellið hér til að sjá allt sem er á dagskránni í dag