Fara í efni
Mannlíf

Mjög skemmtilegt en ofboðslega erfitt

Akureyrski hópurinn, frá vinstri: Þórleifur Stefán Björnsson, Andri Teitsson, Anton Örn Brynjarsson, Einar Ingimundarson, Rakel Káradóttir, Bryndís María Davíðsdóttir, Eir Andradóttir og Auður Hörn Freysdóttir. Liðsstjórinn Rósa Mjöll Heimisdóttir tók myndina.

Átta félagar í Eyrarskokki á Akureyri tóku um helgina þátt í stórri fjallahlaupahátíð á norður-Spáni. Miðstöð hátíðarinnar var í Vielha, litlum en mjög fallegum ferðamannabæ. Hlaupið var um fjöll og firnindi í hinum stórbrotnu Pýreneafjöllum.

Boðið var upp á ýmsar vegalengdir og í öllum hlaupunum voru langar og brattar brekkur. Þórleifur Stefán Björnsson, Andri Teitsson, Bryndís María Davíðsdóttir og Rakel Káradóttir luku 105 km hlaupi með 6000 metra hækkun sem samsvarar því að fara fimm ferðir frá Akureyrarflugvelli og upp á Súlutind. Tími þeirra var í kringum 22 til 25 klukkustundir en það eru aðeins teknar stuttar pásur á drykkjarstöðvum á 1 til 2 klst fresti.

Anton Örn Brynjarsson lauk 55 km hlaupi með 3500 m hækkun og Einar Ingimundarson og mæðgurnar Auður Hörn Freysdóttir og Eir Andradóttir luku 15 km hlaupi með 850 m hækkun. Liðsstjóri hópsins var Rósa Mjöll Heimisdóttir.

Andri Teitsson og Þórleifur Stefán Björnsson.

Þátttakendur voru á fjórða þúsund frá um 80 löndum en mörg hundruð þeirra náðu ekki að ljúka keppni innan strangra tímamarka eða urðu að hætta vegna þreytu eða meiðsla. Steikjandi sól og hiti, 25 til 28 gráður, var ekki að hjálpa hlaupurunum, að sögn Andra Teitssonar.

En hvernig kom það til að hópurinn skellti sér í þetta hlaup?

Andri verður fyrir svörum: „Nokkrir Eyrarskokkarar hafa á undanförnum árum tekið þátt í fjallahlaupum í Chamonix í Frakklandi sem er óhætt að segja að séu þau stærstu og virtustu í heiminum. En það er orðið mjög erfitt að komast þar að, og því er leitað á önnur mið. Ekki spillir fyrir að þetta hlaup á Spáni var stofnað fyrir aðeins tveimur árum, beinlínis með það fyrir augum að keppendur þar gætu styrkt stöðu sína við umsókn um hlaupin í Chamonix.“

Skemmtilegt en erfitt

Bryndís María svarar, þegar spurt er hvernig hafi verið að hlaupa á þessum slóðum: „Rosalega skemmtilegt, en líka alveg ofboðslega erfitt, því að þetta eru svo langar vegalengdir og endalausar brekkur upp í móti. Ekki nóg með það heldur eru leiðirnar niður í móti líka oft erfiðar vegna bratta eða stórgrýtis. En náttúrufegurðin á svæðinu og stemningin í hópnum okkar vegur erfiðleikana upp margfaldlega.“

Andri hafði áður lokið tveimur 100 km fjallahlaupum en Þórleifur, Bryndís og Rakel voru að spreyta sig á því í fyrsta skipti. Þórleifur, segir, þegar spurt er um upplifunina: „Það var alveg einstök tilfinning að koma í mark eftir margra mánaða undirbúning og svo 22 klukkustund harða baráttu við fjöllin. Allt venjulegt fólk lendir í erfiðleikum á einhverjum tímapunkti í svona löngi hlaupi og þá gildir að halda haus, passa að næra sig vel og búta hlaupið niður í áfanga í huganum. Og bannað að gefast upp!“

Mæðgurnar Auður Freysdóttir og Eir Andradóttir.

Falin perla

En fjallahlaup þurfa ekki endilega að vera þjáning í heilan sólarhring. Einar, Auður og Eir luku 15 km hlaupi á innan við þremur klukkutímum. „Þetta var mjög skemmtilegt, við mamma vorum samferða lengst af og hvöttum hvor aðra áfram, sérstaklega í erfiðustu brekkunum,“ segir Eir. „Ég var líka að njóta dagsins með því að dást að útsýninu og taka myndir.“

Það leyndi sér ekki að fáir ferðamenn frá norður Evrópu sækja þetta svæði heim, því að það heyrði til undantekninga ef starfsfólk hótela og veitingastaða skildi stakt orð í ensku að sögn Andra Teitssonar. „Það má því segja að þetta svæði sé falin perla, með einstaka náttúrufegurð og óteljandi stíga og fjallaslóða fyrir útivistarfólk. Heimafólk er stolt af uppruna sínum og ein kona sagði: Nei ég er ekki spænsk, ég er katalónsk.

Súlur Vertical framundan

„Nú fáum við þriggja vikna pásu fram að Súlur Vertical fjallahlaupahátíðinni okkar sem verður haldin heima á Akureyri um verslunarmannahelgina. Súlur Vertical sló í gegn í fyrra með frábærri stemmingu og umgjörð í kringum hlaupin, það er hægt að velja um 18 km hlaup með hóflegum brekkum, 28 km hlaup með einni ferð upp á Súlur og loks mjög krefjandi 55 km hlaup með 3500 metra hækkun. Ég hvet alla til að koma og hlaupa með okkur um verslunarmannahelgina, það verður hörku stuð og allir finna hlaup við sitt hæfi.“

Einar Ingimundarson

Anton Brynjarsson

Bryndís María Davíðsdóttir og Rakel Káradóttir.