Fara í efni
Mannlíf

Miklar upplýsingar um gömlu myndirnar

Margvíslegar upplýsingar hafa borist Minjasafninu á Akureyri um gömlu myndirnar sem birst hafa á Akureyri.net vikulega í rúmt ár; allar götur síðan vefurinn fór í loftið föstudaginn 13. nóvember á síðasta ári. Alls hafa birst 55 myndir frá safninu og vekja þær jafnan gríðarlegan áhuga lesenda.

Upplýsingum verður bætt við myndirnar í efnisflokknum GAMLA MYNDIN hér á vefnum á næstu dögum. Hér er dæmi um upplýsingar sem borist hafa. Um myndina af stúlkunum tveimur segir í samantekt safnsins:

„Tekið á horninu á Glerárgötu og Gránufélagsgötu og horft er austur Gránufélagsgötu yfir Glerárgötu. Stúlkan sem situr sparksleðann er Anna Sigríður Eggertsdóttir Guðmundar byggingameistara frá Siglunesi sem byggði Gránufélagsgötu 11 og bjó þar ásamt Stefníu Sigurðardóttur frá Kambhóli og 9 börnum. Stúlkan sem stendur er Hlín Jónsdóttir Jónatanssonar járnsmiðs sem bjó í Glerárgötu 3 ásamt konu sinni Þórunni Friðjónssyni frá Sandi. Anna var fædd 1910 og Hlín 1911 og voru þær vinkonur og nábúar. Tvö húsin sem eru nær eru farin í dag og húsið sem er næst var kallað Guðmundarhús en þar átti heima Guðmundur og fjölskylda en einn sonur þeirra er Jón Oddgeir Guðmundsson sem í dag býr í og á Glerárgötu 1. Hann á líka „Litlu búðina“ sem er þar í bakhúsi og selur hann þar t.d. bílabænina. Næsta hús þarna var kallað Strýta og ferðafélagið fékk það hús og flutti að ég held inn í Herðubreiðalindir og þetta hús skáli þar í dag. Húsið sem sér aðeins í gaflinn á er Gránufélagsgata 19.“