Fara í efni
Mannlíf

Mikilvægt að fara að reglum

Opið bréf til Hlínar Benediktsdóttur í kjölfar greinar hennar Blöndulína, samtalið, umhverfismat og heilsufar 

_ _ _

Ágæta Hlín.

Þakka góðar kveðjur!

Mikilvægt er að Blöndulína 3 fái framgang samkvæmt reglum sem stjórnvöld móta. Það er ekki hlutverk Akureyrarbæjar að verjast Landsneti þegar um er að ræða loftlínur á íbúðar og þróunarsvæði. Landsnet þarf að sýna fram á að það virði stefnu stjórnvalda, þegar um þéttbýlisákvæði stefnunnar er að ræða og nýti viðeigandi lausnir. Það tel ég Landsnet ekki hafa gert og vísa þar m.a. til orða ráðherra á Alþingi.

Innan skilgreinds þéttbýlis norðan Rangárvalla hefur Landsnet tvo valkosti, en velur að bjóða Akureyringum þann lakari, þvert á stefnu stjórnvalda um raflínur. Það er ekki út í bláinn að loftlínur af þessu kalíberi eru taldar óæskilegar við íbúðabyggð.

Þú nefnir kynningarfund á Hótel KEA. Kannski er þar upplagt tækifæri til að skýra mismunandi valkosti fyrir íbúum: Útfærslur á loftlínuhugmyndum Landsnets og áhrif þeirra, ásamt hugmyndum Akureyrarbæjar að 1,3 - 2 km jarðstreng. Kallað er eftir báðum sjónarmiðum um áhrif og sýnileika, sem lítt eða ekki hafa verið kynnt.

Nýlegar breytingar Landsnets á legu loftlínunnar innan Akureyrar hafa enga kynningu fengið enn og voru ekki hluti af lögbundnu umhverfismati.

Þriggja km jarðstrengsleið frá Rangárvöllum að Kífsá hefur hinsvegar verið á aðalskipulagi Akureyrar frá 2012, að tillögu Landsnets.

Upplýst umræða og kynning af þessu tagi gæti verið farsæll áfangi til málamiðlunar um leið Blöndulínu 3 innan skilgreinds þéttbýlis Akureyrar, sem nýtur lögbundinnar sérstöðu.

Víðir Gíslason er Akureyringur