Fara í efni
Mannlíf

Mikilvæg stig í húfi og kaffispjall með Óskari

Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari Þórs, býður stuðningsmönnum í kaffispjall í Höllinni kl. 18.15, klukkutíma áður en leikurinn við Skallagrím hefst. Ljósmynd: Páll Jóhannesson

Í kvöld ræðst í hvaða sæti Þórsarar enda eftir hina hefðbundnu deildarkeppni í 1. deild karla í körfubolta og skiptir leikurinn miklu máli upp á úrslitakeppnina. Þórsarar fá lið Skallagríms í heimsókn og er leikurinn liður í síðustu umferð. Viðureignin hefst kl. 19.15.

Efsta lið deildarinnar leikur næsta vetur í efstu deild Íslandsmótsins, Subway deildinni, en liðin í 2.-9. sæti berjast um eitt laust sæti í efst deild. Fyrir kvöldið er Skallagrímur í fimmta sæti með 11 sigra, en Þróttur úr Vogum og Þór koma þar á eftir, hafa bæði unnið 10 leiki. Sigur í kvöld gæti tryggt Þór fimmta sætið sem myndi gefa heimavallarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, gegn liðinu sem endar í sjötta sæti. Kæmi til oddaleiks færi hann sem sagt fram á heimavelli Þórs.

  • Rétt er að nefna að einni klukkustund áður en leikurinn hefst hyggst Óskar Þór þjálfari Þórs mæta í kaffispjall með stuðningsmönnum liðsins. Fundurinn hefst kl. 18.15 þar sem þjálfarinn hyggst fara yfir hvernig hann hefur skipulagt leikinn og fara yfir lið andstæðinganna.