Fara í efni
Mannlíf

Mikill ávinningur af hreyfingu á meðgöngu

Kristín Hólm Reynisdóttir, með Katrínu Brynju dóttur sína, og Björk Óðinsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kristín Hólm Reynisdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, og Björk Óðinsdóttir, crossfitmeistari og einn eigenda líkamsræktarstöðvarinnar Norður, hyggjast í vetur bjóða upp á meðgöngunámskeið; líkamsrækt fyrir ófrískar konur. Áður hafa stöðvar á Akureyri verið með mæðratíma – nú foreldratíma, því algengt sé að feður í fæðingarorlofi taki þátt – en þær segja meðgöngunámskeiðið nýjung.

Hreyfing á meðgöngu er mjög mikilvæg, segir Kristín, sem gerði einmitt lokaverkefni í ljósmóðurnáminu um ávinning af hreyfingu á meðgöngu. „Hreyfing getur komið í veg fyrir fjölmarga meðgöngutengda kvilla og ekki síður eftir fæðingu; hreyfing á meðgöngu hefur áhrif á andlega og líkamlega líðan, hún getur minnkað líkur á meðgöngueitrun, meðgöngusykursýki, býr konur vel undir fæðinguna og konur eru fljótari að koma sér af stað eftir fæðingu hafi þær stundað hreyfingu á meðgöngu,“ segir Kristín við Akureyri.net.

Björk segir að konur þurfi ekki að hafa stundað hreyfingu áður til þess að geta haft gott af námskeiðinu. „Þær geta alveg byrjað að hreyfa sig þótt þær séu orðnar ófrískar, það er aldrei of seint. Námskeiðinu fylgir svo kort í aðra tíma á stöðinni, þannig að þær sem vilja geta komið oftar,“ segir hún. Foreldratímar verða þrisvar í viku en meðgöngutímarnir tvisvar. Námskeiðin hefjast í fyrstu viku september og hvert stendur í fjórar vikur.

Þær segjast munu flétta örstutta fræðslu inní suma tíma meðgöngunámskeiðsins en það fari eftir hverjum hópi fyrir sig hvaða fræðsla verður fyrir valinu. Lögð verði áhersla á að tímarnir séu skemmtilegir og líflegir. „Síðast en ekki síst er félagslegi þátturinn mjög mikilvægur, að hitta aðrar konur á sama stað, geta spjallað saman og vonandi myndað vinatengsl. Við þjálfararnir erum alltaf til staðar og það allra mikilvægasta er að konunni líði betur þegar hún fer frá okkur en þegar hún kom,“ segir Kristín Hólm.