Fara í efni
Mannlíf

Mikil skemmtun en naumt tap Þórs í Höllinni

Ragnar Ágústsson lék sérlega vel fyrir Þór í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ragnar Ágústsson lék sérlega vel fyrir Þór í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ungt lið Þórs sýndi skemmtilega takta og baráttan var til fyrirmyndar þegar það mætti Breiðabliki í kvöld í úrvalsdeildinni í körfubolta, Subway deildinni, í íþróttahöllinni á Akureyri. Þórsararnir ungu urðu þó að sætta sig við tap, 116:109, eftir að þeir voru 10 stigum yfir í hálfleik, 58:48.

Varnarleikur er sjaldnast í hávegum þegar Blikar stíga inn á völlinn og þannig var í kvöld, en úr varð hin mesta skemmtun.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 27:28 – 31:20 – 58:48 – 15:29 – 36:39 – 109:116 

Ragnar Ágústsson var frábær í Þórsliðinu og lang besti maður vallarins; gerði 24 stig, tók 14 fráköst og var alls með 38 framlagsstig. Daninn Ágúst Emil Haas var líka góður eftir erfiða byrjun, gerði 26 stig, gaf átta stoðsendingar og náði sjö fráköstum.

Þórsarar eru fallnir en Blikarnir í hörkubaráttu við að komast í átta liða úrslitakeppnina. Þeir komust með sigrinum í kvöld í 16 stig og upp að hlið KR-inga í áttunda sæti, en urðu sannarlega að hafa fyrir sigrinum. Þórsarar sýndu að margt býr í þeim en reynsluleysi háði þeim þegar mest á reyndi.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum

Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun á Vísi