Fara í efni
Mannlíf

Mikil áskorun að vera múslímsk kona á Íslandi

Fayrouz kom sem flóttamaður til Akureyrar fyrir 7 árum síðan. Hún talar reiprennandi íslensku og er í doktorsnámi við HÍ. Þar er hún að vinna að rannsókn um atvinnuþátttöku múslímskra kvenna á Íslandi. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Fayrouz Nouh, sem búsett er á Akureyri, fékk nýlega fimm og hálfrar milljóna króna styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála vegna rannsóknar sem hún vinnur nú að um þáttttöku múslimskra kvenna á íslenskum vinnumarkaði.

Málefnið stendur Fayrouz nær en hún er sjálf múslími og var í hópi fyrstu sýrlensku flóttamannanna sem komu til Íslands árið 2016. 

Rannsóknin er hluti af doktorsnámi Fayrouz við Háskóla Íslands en þar leitast hún við að kanna hvaða þættir ýmist styrkja eða veikja þátttöku múslimskra kvenna á vinnumarkaði hér á landi. „Ég veit hvað það getur verið erfitt að vera múslímsk koma með hijab [slæðu sem hylur hár eða hluta af hári og andliti], með annað tungumál og aðra menntun,“ segir Fayrouz við Akureyri.net. Sjálf talar hún orðið mjög góða íslensku.

Hefur bakgrunnur áhrif?

„Í þessari rannsókn er ég að kanna hvort og hvernig bakgrunnur múslímskra kvenna hefur áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði. Eru þær t.d. að nota menntun sína? Ég veit að margar þeirra eru hámenntaðar frá sínu heimalandi en fá menntunina ekki metna eða þá að það tekur mjög langan tíma að fá hana metna þar sem menntakerfið er öðruvísi. Ég vil komast að því hvernig þær eru að tækla stöðuna. Eru þær fjárhagslega virkar? Þá er líka algengt í löndunum sem þær koma frá að konur vinni ekki en svo koma þær hingað og sjá að íslensku konurnar eru mjög virkar á vinnumarkaðinum. Hvaða áhrif hefur það á þær? Og ef þær eru að reyna að komast inn á vinnumarkaðinn hvernig gengur það? Ég vil skoða mannlegu, félagslegu og menningarlegu verðmætin, hvernig eru þær að nýta sér þau? Eru þær t.d. að nýta sér félagsleg tengsl til að fá vinnu?“ segir Fayrouz.

Meðal þess sem Fayrouz er að skoða í rannsókn sinni er hvort munur sé á atvinnuþátttöku eftir byggðarlögum, hvernig bakgrunnur þeirra hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra, hvort konurnar verði fyrir fordómum og ef svo er hvernig takast þær á við þá.

Viðtöl við 40 múslímskar konur

Fayrouz kom til Akureyrar árið 2016 eins og áður segir ásamt eiginmanninum Ibrahim og tveimur börnum þeirra hjóna, Jönu sem er 16 ára í dag og Farouq, sem nú er 14 ára. Yngsti sonurinn, Abdulrahmann fæddist á Íslandi sama ár og þau fluttu til landsins. Fljótlega eftir komuna til Akureyrar skráði Fayrouz sig í meistaranám við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri sem hún lauk árið 2020. Meistaraverkefni hennar fjallaði um aðlögun arabískra múslímakvenna utan höfuðborgarsvæðisins. Nú er hún komin í doktorsnám við Háskóla Íslands og kafar dýpra í málefni múslímskra kvenna með áherslu á atvinnuþátttöku.

„Þetta er stórt verkefni sem ég byrjaði að vinna árið 2021. Ég er nú þegar búin að taka 14 viðtöl af 40 við múslímskar konur. Þá mun ég einnig taka 15 viðtöl við fólk sem er að aðstoða þessar konur við að komast inn á vinnumarkaðinn eins og starfsmenn Vinnumálastofnunar, starfsmenn sveitarfélaga o.s.frv,“ segir Fayrouz og heldur áfram; „Ég vil kanna hvort staðan sé öðruvísi hjá flóttamönnum en innflytjendum. Sem flóttamaður færðu aðgang að sérstökum námskeiðum og aðstoð sem hjálpar til með aðgang að vinnumarkaðinum, sem aðrir innflytjendur hafa ekki. Þá vil ég einnig vita hvort það sé munur á atvinnuþátttöku múslímska kvenna eftir sveitarfélögum, hvort það sé auðveldara að fá aðgengi að vinnumarkaðinum í litlum byggðarlögum miðað við stærri byggðarlög. Þá er einnig áhugavert að heyra hvort konurnar verði fyrir fordómum og hvernig þær hafi tekist á við þá.“

Aðstoðar erlend börn í Giljaskóla

Þessi sjö ár sem Fayrouz og fjölskylda hennar hafa búið á Íslandi hafa ekki bara verið dans á rósum. Þrátt fyrir að hafa fengið góða aðstoð og hjálp í byrjun sem flóttamaður tók aðlögunin á alla fjölskylduna. Fayrouz segist lengi hafa verið með samviskubit yfir að hafa lagt þetta álag á börn sín, en í dag er hún sátt við lífið og tilveruna, enda börnin á góðum stað bæði námslega og félagslega. Og þó sýrlensk ættmenni séu víðs fjarri þá finnist henni vinir hennar á Akureyri vera orðin hennar fjölskylda.

En hvernig hefur henni sjálfri gengið að komast inn á vinnumarkaðinn sem múslímsk kona?

„Þegar ég kom til Akureyrar þá varð ég eiginlega strax ófrísk svo ég var ekki að hugsa um vinnu. En ég vildi gera eitthvað meðfram barnauppeldinu og fór því í nám. Fljótlega byrjaði ég að starfa sem túlkur fyrir múslímskar konur sem komu hingað og þurftu á kvenkyns túlki að halda t.d. í tengslum við læknisheimsóknir. Síðar sá ég auglýsingu frá Giljaskóla og þorði varla að sækja um starfið því mér fannst íslenskan mín ekki vera nógu góð. Það kom mér því gleðilega á óvart þegar ég fékk starfið,“ segir Fayrouz sem starfar sem fjölmenningarfulltrúi í Giljaskóla og kann vel við sig í því hlutverki. „Mér finnst ég vera að gera gagn í þessu starfi sem felst í því að aðstoða erlend börn og fjölskyldur þeirra við að skilja íslenska skólakerfið og hjálpa þeim að aðlagast. Og öfugt. Starfið felst ekki síður í því að hjálpa starfsfólki skólans við að skilja og laga skólastarfið að þörfum erlendu nemendanna.“

„Ég held að það sé óhætt að segja að vera múslímsk kona á Íslandi og þar að auki með hijab er áskorun. Mjög stór áskorun. Ég vona að þessi rannsókn hjálpi yfirvöldum til þess að efla þessar konur. Sumar þessara kvenna vita ekki um réttindi sín og skyldur og þurfa að fá hvatningu frá samfélaginu.“

Vill gefa til baka til samfélagsins

Rannsóknarstyrkurinn sem nefndur var hér í upphafi gefur Fayrouz kleift að minnka við sig vinnuna í Giljaskóla og einbeita sér að rannsóknarverkefninu og fyrir það er hún þakklát. Í raun segir hún að ástæðan fyrir því að hún vilji helga sig þessu verkefni sé ekki síst sú að hún vilji gefa til baka til samfélagsins með því að auka skilning og stuðla að inngildingu og jafnri þátttöku múslímskra kvenna á vinnumarkaði hér á landi.

„Það vantar aukinn skilning sem dregið gæti úr neikvæðum viðhorfum. Fólk skilur oft ekki af hverju múslímskar konur eru að klæðast hijab. Fólk er stundum forvitið og er að spyrja þessar konur spurninga á borð við; „Hvers vegna ertu að fasta og pína sjálfan þig? Þú ert fallegri án slæðunnar, af hverju þarftu að vera með hana?“ Margar múslímakonur eru ekki með tungumál til að tjá sig, ekki íslensku eða ensku, og finnst því erfitt að fá svona spurningar því þær geta ekki útskýrt og varið sig og upplifa þessa forvitni oft sem árás,“ segir Fayrouz.

Mjög misjöfn upplifun

Þá segir hún líka að það sé til í dæminu að múslímskar konur vilji ekki vinna, einfaldlega af því að það tíðkast ekki í þeirra heimalandi. Þá hefur hún sannarlega fengið jákvæðar sögur líka af atvinnuþátttöku múslímskra kvenna á Íslandi, svo upplifunin kvennanna er mjög misjöfn.

„Það er því enn of snemmt að segja til með útkomuna en ég held að það sé óhætt að segja að vera múslímsk kona á Íslandi og þar að auki með hijab er áskorun. Mjög stór áskorun. Ég vona að þessi rannsókn hjálpi yfirvöldum til þess að efla þessar konur. Sumar þessara kvenna vita ekki um réttindi sín og skyldur og þurfa að fá hvatningu frá samfélaginu. Þá þarf samfélagið líka að fá að vita meira um þær og skilja að það er munur á íslenskum og múslímskum konum. Vonandi mun þessi rannsókn opna dyrnar að auknum skilningi og þar með dyrnar að meiri þátttöku þessara kvenna á vinnumarkaðinum,“ segir Fayrouz Nouh.