Fara í efni
Mannlíf

Metin falla hvert af öðru hjá KA

Hallgrímur Mar Steingrímsson, til hægri, og Nökkvi Þeyr Þórisson fagna eftir að sá síðarnefndi gerði…
Hallgrímur Mar Steingrímsson, til hægri, og Nökkvi Þeyr Þórisson fagna eftir að sá síðarnefndi gerði 17. mark sitt í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumenn KA hafa fellt hvert félagsmetið af öðru í sumar. Farið er yfir málið í skemmtilegri umfjöllun á vef félagsins.

Einnig má nefna að Víðir Sigurðsson, fréttastjóri íþrótta á Morgunblaðinu, greindi frá því á dögunum að Hallgrímur Mar Steingrímsson væri sá leikmaður, sem nú væri í efstu deild Íslandsmótsins, sem hefði spilað lengst án þess að missa úr leik; hann hefur tekur þátt í hverjum einasta síðan KA komst aftur upp í efstu deild 2017. Leikirnir eru nú orðnir 128 í röð. Hallgrímur á þó langt í Íslandsmetið, Birkir Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður spilaði á sínum tíma 198 leiki í röð með Fram og ÍA!

Þá er vert að geta þess að Nökkvi Þeyr Þórisson gerði 17 mörk fyrir KA í deildinni í sumar og bætti þar með Akureyrarmetið; áður hafði sami leikmaður mest gert 14 mörk fyrir Akureyrarlið í efstu deild. Það var Hermann Gunnarsson – hinn eini sanni Hemmi Gunn – sem gerði 14 mörk fyrir ÍBA í 1. deild Íslandsmótsins árið 1970. Þá spilaði hvert lið 14 leiki í deildinni. Félagsmet KA átti Elfar Árni Aðalsteinsson sem gerði 13 mörk í efstu deild 2019.

Neðangreint kemur fram á vef KA:

 • Hallgrímur Mar varð leikjahæsti KA-maðurinn í efstu deild þegar liðið vann Val 1:0 á dögunum. Hann á nú 128 leiki að baki í deild þeirra bestu; alla leiki félagsins á þeim vettvangi síðan 2017 eins og kom fram hjá Víði.
 • Metið átti Erlingur Kristjánsson, fyrirliði KA þegar liðið varð Íslandsmeistari 1989; hann tók á sínum tíma þátt í 127 leikjum í efstu deild.
 • Hallgrímur Mar varð sá leikjahæsti í sögu KA á síðasta tímabili og bætir með hverjum leiknum; á nú að baki 277 leiki fyrir KA í deild og bikar.
 • Hallgrímur Mar er einnig markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 85 mörk og þar af eru 43 mörk í efstu deild sem er einnig félagsmet.
 • Með sigrinum á Val setti liðið félagsmet í efstu deild en að loknum 22 umferðum í sumar er KA með 43 stig. Eldra stigamet félagsins var 40 stig sem náðist á síðustu leiktíð
 • Þá tókst loksins að bæta meðalstigametið frá Íslandsmeistarasumrinu 1989 þegar KA fékk 34 stig í 18 leikjum. Það gera 1,89 stig að meðaltali í leik en í sumar fékk liðið 1,95 stig úr hverjum leik.
 • KA gerði 45 mörk í deildarleikjum sumarsins sem er nýtt félagsmet en fyrra met voru 37 mörk sumarið 2017. Að meðaltali skoruðu KA-strákarnir því 2,05 mörk í leik sem er einnig nýtt met en metið frá 2017 voru 1,68 mörk að meðaltali í leik.
 • Markatala KA liðsins í sumar er 19 mörk í plús sem er enn eitt metið. Það gamla var 16 mörk í plús sumarið 2021. Meðalmarkatala sumarsins er 0,86 í plús á leik sem er bæting frá 0,78 mörk í plús á leik frá Íslandsmeistarasumrinu 1989 þegar KA gerði 29 mörk og fékk á sig 15 mörk.
 • Þá vann KA 13 af 22 leikjum í deildinni í sumar. Sigurhlutfallið er því 59% sem er met; gamla metið voru 12 sigurleikir sumarið 2021 – 54,5%.
 • KA vann Leikni 5:0 í Breiðholtinu í sumar sem er stærsti sigur liðsins á útivelli í efstu deild. Eldra met KA var 4:0 sigur á Völsungi 1988 og 5:1 sigur á Víkingi 1989.

Leikja­hæstu KA-menn­irn­ir í efstu deild eru eft­ir­tald­ir, að sögn Víðis Sigurðssonar:

 • 128 Hall­grím­ur Mar Stein­gríms­son
 • 127 Erl­ing­ur Kristjáns­son
 • 115 Stein­grím­ur Birg­is­son
 • 110 Ásgeir Sig­ur­geirs­son
 • 103 Elv­ar Árni Aðal­steins­son
 • 102 Ormarr Örlygs­son
 • 101 Hauk­ur Braga­son
 • 100 Gauti Lax­dal

Umfjöllun á vef KA má sjá hér og hér