Fara í efni
Mannlíf

Metfjöldi perlaði 1200 armbönd fyrir Kraft

Guðlaug Ragnarsdóttir, starfsmaður Krafts. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Mikill fjöldi var samankominn á viðburði Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, í Háskólanum á Akureyri á fimmtudagskvöld. Tilefnið var að perla armbönd og kaupa þau á staðnum, til styrktar félaginu. Guðlaug Ragnarsdóttir, starfsmaður Krafts, var orðlaus yfir mætingunni. 1200 armbönd voru perluð í heildina á viðburðinum. 

„Ég get alveg sagt að ég bjóst ekki við þessu!“ segir Guðlaug við Akureyri.net. „Akureyringar eru aldeilis búnir að koma okkur á óvart! Fjöldinn er ótrúlegur og ég er alveg orðlaus. Við erum með frábæran stuðning frá Stúdentaráði Háskólans á Akureyri og Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.“ Guðlaug segir að salurinn hafi verið orðinn troðfullur strax, en þar komast um það bil 250 manns í sæti. Viðburðurinn hófst kl. 17 og tveimur tímum síðar höfðu selst 738 armbönd. Enn stóðu fjölmargir í röð eftir að fá að borga fyrir böndin sem þau perluðu sjálf. 

Löng röð var allan tímann sem blaðamaður var á staðnum.

„Akureyringar virðast vera spenntir fyrir að fá að perla sín eigin armbönd,“ segir Guðlaug, „sem ég skil að fólk vill gera. Það er ekkert algengt, en mér finnst fallegt hversu margir eru að gera það hérna í dag.“ Það er alls ekki nauðsynlegt að mæta á viðburð og perla til þess að eignast armbandið, en það fæst í fjölmörgum verslunum. Auk þess að vera seld í vefverslun á www.kraftur.org er hægt að kaupa armbönd hérna á Akureyri í Hagkaup, Kúnígúnd og hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.

Bakaríið við Brúna og Kristjánsbakarí lögðu til veitingar fyrir viðburðinn og Guðlaug tekur fram að svona viðburður geri sig ekki sjálfur. „Við eru afskaplega þakklát fyrir dásamlegt samstarf við heimafólkið.“

Sólveig Birna Elísabetardóttir, formaður SHA, Stúdentafélags HA, til vinstri, og Kristþóra Gísladóttir nemi voru sjálfboðaliðar.

„Það er 25 ára afmæli Krafts, og armbandið í ár er svona hátíðarútgáfa,“ segir Guðlaug. „Við byrjuðum fyrir tveimur vikum síðan á svona viðburði í Hörpunni og í ár langaði okkur að hafa landsbyggðina líka með að perla. Við höfum reyndar áður komið til Akureyrar, en í ár förum við í fyrsta skipti á fleiri staði. Á föstudag verðum við á Neskaupsstað og á sunnudaginn á Höfn.“

Guðlaug býr í Mosfellsbæ og er starfsmaður Krafts. „Ég er aðallega að vinna sem umsjónarmaður aðstandenda og svo er ég líka að vinna sem starfs- og námsráðgjafi,“ segir Guðlaug. „Tvisvar í mánuði held ég utan um hóp aðstandenda, sem kemur saman til þess að spjalla. Það er gríðarlega mikilvægt að koma og hafa einhvern til þess að tala við. Ég hef sjálf reynslu af því að greinast með krabbamein og get því rætt þessi mál við fólk og þau þora að spyrja mig um hvað sem er.“