Fara í efni
Mannlíf

„Merkileg tímamót og framfaraskref“

„Hér er að eiga sér stað undirritun sem mun skipa sér sess í íþróttasögu Akureyrar og Knattspyrnufélags Akureyrar sem ein merkilegustu tímamót og framfaraskref sem stigin hafa verið hjá KA og í íþróttabænum Akureyri,“ sagði Ingvar Gíslason, formaður Knattspyrnufélags Akureyrar, í dag eftir undirritun samnings félagsins og Akureyrarbæjar um mikla uppbyggingu á KA-svæðinu á næstu þremur árum.

„Hjarta félagsins okkar slær hér á þessu svæði og hingað höfum við viljað stefna leynt og ljóst síðustu ár með alla okkar starfsemi,“ sagði Ingvar.

„Íþróttir eru og verða ein af meginstoðum þess samfélags sem við viljum búa í og byggja upp. Sameiginlega myndum við órjúfanlega heild sem styður við hvort annað, hvort sem litið er til lýðheilsu, atvinnustarfsemi, kennslu, þroska barna og ungmenna eða afreksíþrótta. Sú uppbygging sem fyrirhuguð er hér á KA svæðinu gerir okkur mögulegt að eflast og vaxa ásamt því að við höfum tækifæri til að sinna skyldum okkar í samfélaginu með enn betri hætti,“ sagði Ingvar.

„Fyrir hönd KA vil ég færa bæjarstjórn bestu þakkir fyrir þeirra framlag og ekki síst fyrir að hafa dug og þor til þess að horfa til framtíðar og þeirra tækifæra sem felast í öflugu íþróttastarfi. Í því samkomulagi sem hér er verið að gera felst mikil viðurkenning á hluverki félagsins og þeirri vinnu sem félagsmenn og iðkendur okkar leggja á sig dag hvern. Við erum að fjárfesta í heilsu og vellíðan og heilbrigði framtíðarinnar, við erum að fjárfesta í æskulýðs og forvarnarstarfi og við erum að fjárfesta í samkepnnishæfni Akureyrar. Til hamingju KA og til hamingju Akureyringar,“ sagði Ingvar Gíslason.

Framkvæmdir hefjast á KA-svæðinu í vor

Ingvar Már Gíslason, formaður KA, Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður frístundaráðs, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, eftir undirritun samningsins í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.