Fara í efni
Mannlíf

Magnús og drengirnir í Leikfimifélagi Akureyrar

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XVI

Sextánda gamla íþróttamyndin birtist á Akureyri.net í dag lesendum til skemmtunar. Þetta eru drengir í Leikfimifélagi Akureyrar ásamt Magnúsi Péturssyni sem var kennari hjá félaginu frá 1922 til 1935. 

Ritstjóri Akureyri.net fékk myndina fyrir nokkrum árum frá dóttur Magnúsar, Ingibjörgu Magnúsdóttur hjúkrunarkonu. Hann þykist þekkja suma drengina með nafni en gefur ekkert upp strax! Kannast lesendur við einhverja á myndinni? Gaman væri að fá ábendingar þar um.

Drengir í Leikfimifélaginu „fóru sýningarferðir um landið, sýndu leikfimi undir stjórn Magnúsar og fengu lofsamlega dóma,“ skrifaði Eiríkur Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri, í minningargrein um Magnús Pétursson árið 1976.

Magnús var Borgfirðingur að ætt, fæddur þar 1890. Eftir að hafa kennt á heimaslóðum og sótt kennaranámskeið í Reykjavík fluttist hann til Akureyrar þar sem Magnús stundaði fyrst smábarnakennslu og leikfimikennslu, en síðar réðst hann til Barnaskóla Akureyrar 1924 og kenndi við þá stofnun til þess er hann varð sjötugur 1960. Þá hætti hann störfum þar vegna aldurs. Lengst af var hann leikfimi- og handavinnukennari.

  • Ingibjörg Magnúsdóttir var fædd á Akureyri 1923 en lést í Reykjavík 2022, 98 ára að aldri. Til fróðleiks má geta þess að Ingibjörg var bæði íþróttakennari og hjúkrunarkona að mennt. Hún var hjúkrunarforstjóri við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í 10 ár og sat í bæjarstjórn Akureyrar 1966 til 1971. Ingibjörg kom á fót fyrsta sjúkra­liðanámi hér á landi og braut­skráði fyrstu sjúkra­liðana vorið 1966. Hún fann raun­ar upp nafnið sjúkra­liði. Árið 1971 hóf hún störf í heil­brigðis- og trygg­inga­málaráðuneyt­inu og var skrif­stofu­stjóri 1989 til 1993.