Fara í efni
Mannlíf

Mæta „vopnaðir“ ef fólk vill láta moka snjó

Mokararnir galvösku. Frá vinstri: Atli Þormóðsson, Victor Leó Halldórsson, Almar Jón Kristinsson, Ga…
Mokararnir galvösku. Frá vinstri: Atli Þormóðsson, Victor Leó Halldórsson, Almar Jón Kristinsson, Gabríel Guðmundsson, Finnur Bessi Finnsson, Arngrímur Friðrik Alfreðsson, Atli Þór Guðmundsson og Maríus Héðinsson.

Nokkrir 15 ára strákar á Akureyri bjóða nú fólki upp á að moka bílaplön, innkeyrslur, stéttir og tröppur. „Við félagarnir vorum búnir að ganga með þessa hugmynd í nokkra mánuði og ákváðum að drífa í þessu strax og byrjaði að snjóa hér fyrir norðan,“ segir einn þeirra, Almar Jón Kristinsson, við Akureyri.net.

„Það er nokkuð mikið að gera, en við erum átta og förum létt með þetta. Félagi okkar, Finnur Bessi, stakk upp á þessari frábæru hugmynd vegna leiðinda í Covid faraldrinum; þegar hann sá að Akureyrarbær ætlaði að spara pening með því að minnka snjómokstur var ekki annað hægt en láta hugmyndina verða að veruleika.“

Strákarnir segjast vera að gera góðverk fyrir Akureyringa „sem geta eða nenna ekki að moka sjálfir og í staðinn fáum við smá vasa pening til að kaupa okkur eitthvað fallegt,“ segir Almar.

Á Facebook síðunni AK-snjómokstur segjast strákarnir vopnaðir skóflum og tveimur snjóblásurum. Þeir eru allir í skóla og segjast því oftast moka eftir klukkan fjögur á daginn eða snemma á morgnana. Gjaldið er 3.000 krónur fyrir að moka svæði til að einn bíll komist í innkeyrslu en 5.000 krónur sé snjóþykktin meiri en 80 cm. Hægt er að senda strákunum póst á snjomoksturak@gmail.com eða á Facebook.