Fara í efni
Mannlíf

Liverpool skoraði tvö á meðan Ívar söng YNWA!

Mynd sem Hilda Jana birti á Facebook í morgun.

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og harður stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir skemmtilega sögu á Facebook í morgun af ótrúlegri tilviljun – eða ekki tilviljun, maður spyr sig!

„Ég hreinlega verð að segja ykkur smá sögu frá skemmtilegu augnabliki í Akureyrarkirkju í gærkvöldi. Þar voru haldnir hreint út sagt frábærir styrktartónleikar fyrir byggingu nýrrar kirkju í Grímsey, þar sem frábært listafólk gaf vinnu sína og bauð upp æðislega kvöldstund. Fyrstu lögin sem flutt voru í gærkvöldi, voru jafnframt þau síðustu sem flutt voru í Grímseyjarkirkju áður en hún brann til grunna. Annað þeirra laga er í miklu uppáhaldi hjá mér, Liverpool lagið You´ll never walk alone sem Ívar Helgason flutti. Ég vissi að Liverpool var á sama tíma í gærkvöldi að spila við Villarreal og staðan var 0-0 þegar Ívar steig á stokk. Ég hnippti í sessunaut minn Sindri Kristjánsson og sagði við hann að Liverpool hlyti að skora þegar lagið þeirra væri flutt í kirkju. Ég reif upp símann til að taka upp sönginn hjá Ívari og vitið menn, í fyrsta viðlagi fæ ég tilkynningu í símann um að Liverpool sé búið að skora! Áður en Ívar náði að klára lagið var Liverpool búið að skora annað mark! Það er skemmst frá því að segja að Liverpool vann leikinn 2-0 og tónleikarnir voru stórkostlegir, á sama tíma og safnað var fyrir nýrri Grímseyjarkirkju.“