Fara í efni
Mannlíf

Litríkt götulistaverk í miðbænum

Mynd af Facebook síðu Akureyrarbæjar.

Göngugatan í miðbæ Akureyrar, sá hluti Hafnarstrætis sem liggur milli Kaupvangsstrætis og Ráðhústorgs, er óvenju litskrúðug. Þar hefur listafólk verið við vinnu síðustu daga með pensla á lofti og málningardósir sér við hlið.

„Nýja litríka götulistaverkið í miðbænum hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli,“ segir á Facebook síðu Akureyrarbæjar.

Verkið er unnið af Freyju Reynisdóttur og Agli Loga Jónassyni með aðstoð Jónborgar Sigurðardóttur. Egill segir um sinn hlut í verkinu að hann sé að vísa til áhugamála æsku sinnar þegar hann málaði fyrstu kynslóð Pokemona af miklum móð og það geri hann enn. „Mér þóttu litirnir fallegir og svo var skemmtileg tilviljun að þeir mynduðu fána pansexualitets,“ segir Egill Logi á síðunni. Freyja leikur sér með andlit sem snýr til tveggja átta og gerir að auki hestalistaverk „því ég er stundum hestalistamaður“, eins og hún segir. „Því miður hefur götulistaverkið látið nokkuð á sjá vegna vatnsveðurs síðustu daga en bráðum kemur bongóblíða og þá verður það lagfært sem aflaga hefur farið,“ segir á Facebook síðu Akureyrarbæjar, þar sem meðfylgjandi mynd birtist í gær.