Fara í efni
Mannlíf

„Listin heldur mér á lífi“

Sigmar varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu sem er talið að hafi orsakað geðklofann sem hann hefur verið að glíma við. Fyrir fjórum árum fékk hann ADHD lyf og þá breyttist líf hans mikið. Hann fór m.a. að mála sem gefur honum mikla lífsfyllingu. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Sigmar Jósepsson, sem glímt hefur við geðklofa frá 17 ára aldri, opnar heimili sitt á laugardag og heldur þar listsýningu. Trúarbrögð af ýmsum toga eru honum hugleikin og þá ekki síst Akureyrarkirkja sem sést í mörgum hans myndlistarverkum.

„Ég veiktist af geðklofa mjög ungur og fékk greiningu 17 ára. Fyrir fjórum árum síðan fékk ég ADHD lyf sem breyttu öllu og þetta er afraksturinn,” segir Sigmar og bendir á yfirfulla veggi af málverkum á heimili sínu. „Þetta eru búin að vera alveg rosalega góð fjögur ár, þó þau hafi líka verið erfið, en listin heldur mér á lífi. Ég reyndi lengi vel en mér tókst aldrei að mála fyrr en ég fékk ADHD lyfin. Ég tolldi ekki í neinu, ég átti mér ekkert líf. Ég var feiminn og það var erfitt að hugsa. Ég var með viljann til þess að gera hluti en gat ekki þvingað fram einbeitingu,” segir Sigmar sáttur við að hafa loksins fundið lyf sem virka fyrir hann.

Akureyrarkirkja og önnur trúartákn eru áberandi í verkum Sigmars en hann vinnur mest með olíu og akrýl.

Áhugamaður um trúarbrögð

Að eigin sögn veitir listsköpunin Sigmari mikla lífsfyllingu og tákna verk hans oftar en ekki glímuna við sjúkdóminn. Sum eru nokkuð dökk en önnur eru litríkari. „Þetta snýst um hvað það er gott að vera með geðfötlun og fá að lifa með henni,” segir Sigmar og bendir þakklátur á verkin í kringum sig. Þá er hann ekki síður þakklátur fyrir aðstoð Slippfélagsins vegna efniskaupa í verkin. „Ég mála mikið landvættina og sýni hjátrúna í kringum þá. Svo er ég mikið með Akureyrarkirkju í verkunum því ég er kristinnar trúar. Ég er hins vegar áhugamaður um Ásatrú og bara alla trú yfir höfuð,” segir Sigmar sem blandar gjarnan saman ýmsum trúartáknum í einu og sömu myndina.

Hans leið að taka þátt í samfélaginu

Sigmar málar á hverjum degi, allt að sjö tíma á dag en þegar hann byrjar að mála þá gleymir hann alveg stund og stað. Hann fékk á sínum tíma leiðsögn hjá myndlistarkonunni Bryndísi Arnardóttur (Billu), en annars er hann sjálflærður. „Billa var með svo jákvæðar væntingar til mín sem listamanns og það hjálpaði mér rosalega mikið. Ég hef verið að glíma við mín andlegu veikindi en að fá svona hvatningu heldur mér á lífi,” segir Sigmar sem verður 35 ára í haust.

Sigmar hefur áður haldið sýningar á verkum sínum í Mjólkurbúðinni, í Grófinni og Ungmennahúsinu Virkinu en afrakstur síðustu fjögurra ára verður nú sýndur í heild sinni á listasýningunni sem opnar á heimili hans á laugardaginn. Heimilið varð fyrir valinu þar sem hann segir að erfitt sé að fá aðgang að sýningarrými í bænum. Þá er hann að flytja um mánaðarmótin úr íbúðinni sem sýningin er haldin í, í húsnæði fyrir fólk með geðraskanir. Það var því upplagt að tæma íbúðina og halda þar sýningu. „Listin gefur mér svo mikinn tilgang. Ég er að reyna að gera gagn með því að skemmta fólki. Ég er að reyna að taka þátt í samfélaginu . Ég er ekki að þessu fyrir peninga heldur bara til að öðlast gildi fyrir mínum æðri mætti, að leggja mitt að mörkum,” segir Sigmar sem býður alla velkomna á opnunina á laugardaginn eða síðar.

  • Heimilisfang: Hjallalundur 18, bjalla 302. Sýningin er opin frá klukkan 16 til 18 alla daga frá 23. júlí til 31. júlí. 

Sigmar fæst einnig við keramik og á sýningunni, sem er sölusýning, er að finna nokkrar styttur eftir hann.

„Ég er alltaf að reyna að koma sem mestu á strigann því það erfiðasta við að mála er að maður vill koma svo miklu frá sér en plássið er svo lítið,” segir Sigmar sem málar allt að sjö tíma á dag bæði á góðum og slæmum dögum eins og sjá má í verkum hans.