Fara í efni
Mannlíf

Listamaðurinn með hauspokann

Drengurinn Fengurinn kemur varla fram nema með hauspoka. Upphaflega fannst listamanninum gott að fela sig á bak við pokann en svo finnst honum grímur almennt vera spennandi. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir.

Drengurinn Fengurinn, hefur undanfarið verið áberandi í listalífi Akureyrar og dúkkað upp á ýmsum viðburðum með málverk, gjörninga og tónlist. En hver er þessi dularfulli listamaður sem kemur helst ekki fram nema með hauspoka?

Drengurinn Fengurinn er listamannsnafn Egils Loga Jónasarsonar, 32 ára listamanns á Akureyri. Listamannsnafnið er að hluta til komið af því að Egill er eini drengurinn í fjölskyldunni en hann á þrjár eldri systur. „Pabbi kallaði mig oft drenginn og sagði þá t.d. „Hva er drengurinn enn sofandi?,“ eða „Hvar er drengurinn eiginlega?“, segir Egill aðspurður út í listamannsnafnið. „Síðan fannst mér ég vera svo mikill fengur fyrir kvenkynið og þannig varð nafnið Drengurinn Fengurinn til. Frænka mín stakk reyndar upp á nafninu Strákurinn Fákurinn og ég kann eiginlega betur við það og hef því líka kallað mig það.“

Frumleg og furðuleg list

Drengurinn Fengurinn fæst við tónsmíðar, videóverk, skúlptúra, gjörninga og málverk. Tónlist hans hefur verið flokkuð sem hamfarapopp en hún er frumleg, furðuleg og stendur utan við meginstrauma. Umfjöllunarefni textanna eru persónuleg og hversdagsleg atvik úr daglega lífinu eða hreinn skáldskapur oftast kryddað með kímni. Málverkin eru í svipuðum anda; litrík, gróf og naív olíumálverk. En hefur hann alltaf verið svona skapandi? „Nei, ég var mjög þunglyndur og neikvæður krakki. Ég var alltaf að leita að viðurkenningu en í mótþróa dró ég mig í hlé og hafði allt of mikinn áhuga á tölvuleikjum,“ segir Egill um æskuárin í Austurbyggðinni en hann er sonur hjónanna Jónasar Óla Egilssonar, fyrrum rafvirkja og Oddnýju Hjálmarsdóttur, fyrrum læknaritara.

Egill er með vinnuaðstöðu hjá Kaktus í Listagilinu og þangað fer hann á hverjum degi til þess að semja og taka upp tónlist eða til þess að mála. Hann er nokkuð afkastamikill listamaður en hann segist vinna öll sín verk þannig að hann liggi ekki of lengi yfir þeim. Fái hann hugmynd þá reyni hann að koma henni frá sér áður en hann fari að efast um ágæti hennar. Fyrir vikið eru verk Egils oft á tíðum frekar hrá, ófilteruð og einlæg. Tónsmíðarnar tekur hann sjálfur upp á fjögurra rása kasettutæki og hefur nú þegar gefið út 14 plötur og 16 EP plötur. Áhugasamir geta fundið tónlist hans undir Drengurinn Fengurinn bæði á Spotify og Youtube.

Egill, sem gengur undir listamannanafninu Drengurinn Fengurinn, fæst við fjölbreytta listsköpun. Hér er hann við vegglistaverk sem hann málaði á bílskúrsvegg við einkaheimili á Brekkunni.

Tók sjálfan sig í „makeover“

Egill lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Þaðan lá leiðin í Myndlistarskólann á Akureyri og síðan í Listaháskólann í Reykjavík. Eftir námið tóku við nokkur róstursöm ár sem einkenndust af drykkju, ástarsorg, þunglyndi og kvíða. „Svo tók ég sjálfan mig í „extreme makeover,“ hætti að drekka og reykja, reif mig upp úr vanlíðaninni og fór almennt að hugsa betur um mig,“ segir Egill. Hann bjó um tíma í Berlín en flutti til baka í heimabæinn haustið 2019 og hóf þá nám í rafeindavirkjun. Aðspurður út í það skref er fátt um svör. Hann brennur ekki beint fyrir faginu því hann vill helst vera að fást við sköpun. Þar til nýlega vann hann hjá Rafeyri á Akureyri en sagði upp starfinu til þess að geta sinnt listinni af fullum krafti þar til skólinn hefst að nýju í haust. Ekki veitir af tímanum því annasamt sumar er framundan hjá Agli. Meðal annars einkasýning á verkum hans í Listasafninu á Akureyri undir nafninu „Þitt besta er ekki nóg“ (http://www.listak.is/is/syningar/naestu-syningar/egill-logi-jonasson) sem opnuð verður í ágúst. Þá er hann að spila á Reykjavík Fringe Festival, á sumarhátíð á Borðeyri og á tónleikaröðinni Mysingi á Akureyri, svo fátt eitt sé nefnt. Og þar sem Egill vill helst aldrei spila sömu dagskrá tvisvar er töluverð pressa fólgin í því að framleiða nýja tónlist og videóverk til þess að flytja á viðburðum sumarsins.

Sært stolt og sjálfsöryggi

Það er ekki bara föst vinna sem Egill hefur látið fjúka í nafni listarinnar. „Það hljómar ekki sérlega vel þegar ég segi fólki að ég búi heima hjá mömmu og pabba,“ segir Egill, sem flutti í kjallarann á æskuheimilinu í Austurbyggðinni þegar hann flutti aftur til Akureyrar. „Þetta er vissulega afturför á fullorðinsárum,“ segir Egill, sem er einhleypur, og bætir við að auðvitað særi þetta stoltið og sjálfsöryggið, en svo lengi sem foreldrar hans vilji hafa hann í kjallaranum þá sé þetta þægilegt fyrirkomulag sem gefi honum tækifæri til þess að sinna listinni af fullum krafti.

Aðspurður hvaða listform honum finnist skemmtilegast segir hann að það sé tónlistin, einfaldlega vegna þess að á tónleikum fái hann viðbrögð áhorfenda stax. Þá segist hann gjarnan vilja semja venjuleg lög, sem falli fólki vel í geð. Í raun gengur hann um með þann draum að vera staddur í matvöruverslun og heyra tónlist sína óma í hljómtækjunum. Það er þó varla að fara að gerast þar sem tónlist Egils er langt frá því að vera það sem fjöldinn vill. „Já ég veit, en mig dreymir samt um að vera venjulegur, þó ég fari alltaf í hina áttina. Líklega er þetta bara kvíði og minnimáttarkennd yfir því að vera ekki nógu góður,“ segir Egill hreinskilinn.

Egill stundar nám við VMA í rafeindavirkjun en vill þó helst vera listamaður í fullu starfi.

Hefur andstyggð á vinnu

Á unglingsárunum dreymdi Egil um að komast í hljómsveit og því fór hann í Tónlistarskólann á Akureyri og lærði á bassa. Á menntaskólaárunum rættist hljómsveitardraumurinn með tilheyrandi athygli og Agli fannst hann vera mjög kúl og svalur. Hljómsveitardraumurinn entist þó stutt og í dag vinnur Egill mestmegnis einn að tónlist sinni, enda segir hann að það sé erfitt að finna samstarfsfólk sem sé á sömu bylgjulengd hvað metnað varðar og þá sé hann of stjórnsamur. Hann segir að draumurinn í dag sé fyrst og fremst sá að geta lifað á listinni. Þá væri ekki verra að komast inn í listaklíkuna í Reykjavík og fá listamannalaun því hann hafi engan áhuga á venjulegri vinnu. „Ég hef andstyggð á vinnu. Ég er ágætur þegar ég er í vinnu en mér fer fljótt að leiðast. Ég vil helst ekki vinna nema fjóra tíma á dag, annars hef ég engan tími til þess að vinna að mínum verkum og þá verð ég pirraður,” segir Egill. Honum er fullkomin alvara sem sést best á því að eitt hans nýjasta plata hans heitir einmitt „Ég hata að vinna”. Egill hefur þó verið í alls konar vinnum um dagana, mestmegnis þó í vaktavinnum sem gefa góð frí inn á milli sem hann hefur nýtt til þess að vinna við það sem hann raunverulega vill og þar slær hann ekki slöku við.

En hvað er málið með hauspokann? Þú ert alltaf með hauspoka þegar þú kemur fram?

„Upphaflega var ég hræddur við að afhjúpa mig og þá var gott að fela sig bak við hauspokann því ég er kvíðinn í eðli mínu. Í dag nota ég hann meira til að byggja upp spennu hjá áhorfendum. Ég hef alltaf verið hrifinn af grímum, það er eitthvað spennandi við þær,“ segir Egill að lokum.

  • Áhugasamir geta kíkt betur á verk listamannsins á Instagram reikningnum egill_jnsn.