Fara í efni
Mannlíf

Lífið er dásamlegt, segir Jói á A7

Ljósmyndir: Kristín Aðalsteinsdóttir

Um hvað er þetta viðtal, er það um líf mitt, það er ágætt, ég er ekki líflaus ennþá. Þú færð ekki mjólk í kaffið. Ég hef ekki haft mjólk hér innanborðs í áratugi. Það kviknaði hér í húsinu 27. desember 1965 og þá varð hér talsverður bruni, ég hef ekki bragðað mjólk síðan, ég veit ekki af hverju.
_ _ _

Með þessum orðum hefst viðtal Kristínar Aðalsteinsdóttur við Jóhann Heiðar Sigtryggsson, þann kunna Innbæing, sem birtist í Súlum, tímariti Sögufélags Eyfirðinga. Jóhann er fæddur 10. júlí 1938 og verður því 84 ára í sumar. Jóhann starfaði hjá KEA í 55 ár og er mörgum af eldri kynslóðum í fersku minni sem bílstjórinn á A7.

  • Kristín er í ritnefnd Súlna en ritstjóri er Jón Hjaltason. Það hefur orðið að samkomulagi að Akureyri.net birti annað veifið kafla úr greinum sem komið hafa í tímaritinu. 

Kristín Aðalsteinsdóttir er fædd 1946 í Þórunnarseli í Kelduhverfi. Hún lauk kennaraprófi 1966, stundaði síðar framhaldsnám erlendis og kenndi á Akureyri, síðast var hún prófessor við Háskólann þar. Kristín lagði nokkrar spurningar fyrir Jóhann Heiðar Sigtryggsson og hluti svara hans fer hér á eftir.
_ _ _

Ég man fyrst eftir mér í Laxdalshúsi, svona þriggja, fjögurra ára, sjórinn og fjaran voru upp við húsið, alveg fast við lóðarhellurnar. Engin hús skyggðu á Höepfnershúsið og ég horfði á skipin sem lágu við Höepfnersbryggjuna, þar var verið að afferma vöru. Ég var ungur þegar ég byrjaði að fara á samkomur í æskulýðsfélaginu sem séra Pétur Sigurgeirsson stofnaði. Þar fékk ég biblíumyndir sem ég á enn. Pétur gerði margt fyrir börnin og unga fólkið, hann var til dæmis með róðrarbáta fyrir krakka og sá um æskulýðsfélagið. Pétur átti heima í Kirkjuhvoli, innst í Innbænum og gekk þess vegna hér inn eftir heim til sín. Við löbbuðum oft með honum, hann var góður maður, það var gott að labba með honum. Hann varð seinna biskup. Friðrik J. Rafnar fermdi mig. Þegar ég var fermdur fékk ég fjörutíu kort og skeyti svo að ég hef ekki verið illa kynntur. Séra Friðrik byggði hús í þorpinu sem hann nefndi Útskála því hann hafði áður verið prestur á Útskálum á Reykjanesi. Jói prests, sonur hans, átti fyrsta mótorhjólið sem ég sá, það var rautt og fjári flott.

...

En við strákarnir vorum leiðinlegir á gamlaárskvöld, þá gerðum við hasar. Við reyndum að gera eitthvað til bölvunar og bjuggum til sprengjur. Við bjuggum til sprengjupúður og allt sem til þurfti. Það var auðvitað ekki hægt að kaupa neitt. Við blönduðum saman efnum, allavega efnum, brennisteini og fleiru. Við muldum brennisteininn af eldspýtum og notuðum bómull í sprengjuþráð og kveiktum í sprengjunum hér úti. Þá var mikið fjör.

Ég var mikið á skíðum í brekkunum í Búðargilinu, í Hallgrímsgörðum, görðunum sem eru fyrir ofan gamla leikvöllinn í Búðargili. Hallgrímur Davíðsson átti þessar brekkur, hann átti heima í Aðalstræti 19. Oft var mikill snjór í Hallgrímsgörðum á vetrum og ljótar hengjur, alveg stórhættulegar. Þarna var þó aðal skíðabrekkan í bænum og margt fólk, bæði krakkar og fullorðið fólk kom í brekkurnar. Það var ekki farið í Hlíðarfjall á þessum tíma.

Við renndum okkur í þessum brekkum, krakkarnir og Jón millimetri tók tímann, hann hallaði sér upp að ljósastaur, tók tímann og kallaði „ready“. Þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði þetta enska orð. Strákar utan úr bæ komu líka í brekkurnar. Stundum var þarna krakkamót. Maggi Binna, Magnús Brynjólfsson, ólympíufari var líka með okkur. Maggi fór á vetrarólympíuleikana 1948, í Saint Moritz í Sviss. Hann var vinsæll og alltaf brosandi. Þeir voru fleiri garparnir sem skiptu sér af okkur. Það gerðu þeir Björgvin Júníusson sem var fyrsti Íslandsmeistari KA í svigi 1942 og Hermann Stefánsson, íþróttakennari við menntaskólann, sem hvatti til þess að fólk skíðaði í brekkunum. Hann vildi koma á íþróttalífi í Innbænum.

...

Mér leið illa í Barnaskóla Akureyrar, það var heldur andstyggilegt að vera í skóla. Því miður fannst mér ekki skemmtilegt í skóla. Ég byrjaði sjö ára hjá Jóni Júlíusi Þorsteinssyni og man ekkert eftir tímanum hjá honum. Ég var með lesblindu, gekk illa, það var ekkert gert fyrir mig vegna þess. Ég hef gott minni, en mér gekk ekki vel að lesa, stafirnir runnu til í höfuðinu á mér, þetta var vont. Svo fékk ég mínútublað og var prófaður í lestri. Þá gat ég lesið tvær línur meðan aðrir lásu heila síðu en þegar þeir voru spurðir um efnið vissu þeir ekki endilega hvað stóð á blöðunum. Ég vissi aldrei að ég væri með lesblindu, ég hélt bara að ég væri svona heimskur, en núna veit ég að ég er ekki heimskur. Þegar ég hætti í skóla, henti ég bókunum út í horn og henti líka öllum skólabókum frá Ríkisútgáfu námsbóka: biblíusögum, bókinni um manninn, skólaljóðum, kristinfræði, ég henti þessu öllu. Ég sé eftir því, það var asnaskapur að henda bókunum. Ég fékk líka vinnubækur með myndum, ég á einhverjar þeirra. Ég var seinna hjá ágætum kennara, Erni Snorrasyni, hann var góður við mig. Hann lét mig leika í leikriti. Á vorskemmtuninni voru allir uppi á sal og ég átti að vera Eiríkur rauði en ég mundi ekki það sem ég átti að segja og sagðist vera Eiríkur græni eða blái og allir hlógu. Ég hitti skólasystur mína eina fyrir tveimur árum í Nettó en hún vildi ekkert við mig tala, ég vil ekkert vera að nudda mér upp við þetta fólk. Búddi, Binni og Filippus voru með mér í bekk og margar ágætar stelpur.

Þegar skóla lauk, síðasta vorið mitt í skóla, var farið í fullnaðarprófsferð. Rútan stóð á skólalóðinni en ég faldi mig á bak við runna, vildi ekki fara með. Svo rann rútan af stað í Mývatnssveit en ég gekk í rólegheitum einn heim. Mér fannst ég vera frjáls.

...

Ég fór að vinna í Kaffibrennslunni 15 ára, en var þar aðeins í þrjá mánuði því ég var lánaður til matvörudeildar KEA. Þar vantaði aðstoðarmann með sendli sem var á bíl. Ég vann síðan hjá KEA í um 55 ár. Um leið og ég fékk bílprófið fór ég að keyra sjálfur. Ég varð sendibílstjóri á bílnum A 7 og keyrði pantanir í hús, aðallega matvöru. Starfið var skemmtilegt og fjörugt, það var skemmtilegt að fara í hús með vörur. Seinna fór ég að fara með vörur af lagernum í verslanirnar og síðar keyrði ég alls konar heimilistæki út um allar sveitir, í Fnjóskadal, til Dalvíkur og alla leið fram að Hvassafelli. Þetta var allt frítt fyrir kúnnann. KEA gerði margt gott. Ef tæki, sem fólk hafði keypt bilaði, þurfti að sækja það heim til fólksins, þ.e. tæki sem enn voru í ábyrgð og flytja þau í bæinn í viðgerð. Ég var alltaf með annan fótinn hjá Samvinnuferðum, sótti farmiða og annað fyrir yfirmenn KEA. Þar var Ásdís Árnadóttir yfirmanneskja. Hún hefur alltaf verið góð vinkona mín. Ásdís bauð mér eitt sinn með sér á árshátíð Samvinnuferða, ég mætti þangað alveg glerfínn og þetta var ágætis skemmtun. Ég hef nú aldrei verið mikið fyrir að dansa en ég held ég hafi skellt mér í dansinn með Ásdísi. Síðustu árin mín hjá KEA fór ég með peningana í bankann.

...

Þegar ég varð fertugur barst mér skeyti með orðum sem mér þótti vænt um:

Í eigin nafni og fyrir hönd Kaupfélags Eyfirðinga sendi ég þér bestu hamingjuóskir í tilefni afmælisins. Ég þakka þér farsæl störf þín í þágu félagsins um áratuga skeið og árna þér framtíðarheilla.

Valur Arnþórsson

Þegar minnst er á afmæli verð ég að nefna að hvíti bíllinn minn varð fimmtugur 22. janúar 2017. Fyrsta bílinn keypti ég 15. mars 1963, bláan fólksvagn. Hann var ágætur, Siddi keypti hann af mér þegar ég keypti hvíta fólksvagninn 1967 og hann á ég enn. Núna er hann nýuppgerður, ég bauð þér í bíltúr um bæinn síðasta sumar, það var góður túr. Bílana mína hafði ég í góðu lagi og hef farið vel með þá. Hún rjátlast samt af manni bíladellan.

Hvíti fólksvagninn sem Jóhann keypti árið 1967 og á enn.