Fara í efni
Mannlíf

Lestrarhestum hleypt á skeið í Glerárskóla

Krakkarnir í 7. bekk Glerárskóla.

Nemendur á yngsta- og miðstigi Glerárskóla hafa varla litið upp úr bókunum síðustu daga, að því er segir í tilkynningu frá skólanum. „Efnt var til sérstaks lestrarátaks meðal krakkanna sem sannarlega sló í gegn. Átakið varði í 13 kennsludaga og heimalestur var talinn með. Alls lásu nemendurnir í samtals 1.506 klukkustundir og meðallestur nemanda var 6,73 klukkustundir,“ segir þar.

3. bekkur

6. bekkur

„Formið var einfalt. Krakkarnir söfnuðu lestrarmínútum og merktu inn á klukkur sem skilað var á bókasafn skólans. Heilmikil keppni varð meðal bekkja en daglega var tölfræði sem sýndi stöðuna hengd upp á áberandi stað í skólanum. Bekkirnir skiptust á að leiða keppnina en krakkarnir í sjöunda bekk áttu mjög sterkan endasprett og lásu mest allra. Heildarlestur þeirra var 427 klukkustundir sem gerir 12,20 klukkustundir á nemanda að meðaltali.

Næst mesti meðallestur nemanda var í þriðja bekk en þar var meðallesturinn 8,71 klukkustund og 8,20 klukkustundir hjá sjötta bekk.

Fjórði bekkur var öðru sæti hvað varðar heildarlestur bekkja, en nemendurnir lásu í samtal 303 klukkustundir. Fimmti bekkur var í þriðja sæti en þar var lesið í 249 klukkustundir.

Óvenju mikið var að gera á bókasafni skólans meðan á átakinu stóð og mun minna var tekið af uppflettiritum, mynda- og fræðslubókum en alla jafna. Þeim mun meira var lánað út af bókmenntum við hæfi nemendanna.

Í verðlaun fyrir frábæra ástundun fá krakkarnir í sjöunda bekk frjálsan tíma í íþróttasal skólans með umsjónarkennurunum sínum.“

Á myndunum eru þeir bekkir sem unnu til verðlauna í keppninni.

4. bekkur

5. bekkur

5. bekkur