Fara í efni
Mannlíf

Lengsta sviflína landsins í Glerárgili

Ljósmyndir: Anita Hafdís Björnsdóttir, Helga Kvam og Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir
Ljósmyndir: Anita Hafdís Björnsdóttir, Helga Kvam og Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir

Lengsta sviflína landsins, 260 metrar, var nýlega tekin í notkun á Akureyri. Það er fyrirtækið Zipline Akureyri sem býður upp á öðruvísi og spennandi skoðunarferðir. Alls eru línurnar fimm og veita fólki einstakt tækifæri til að svífa yfir Glerárgil og njóta náttúrufegurðar þess frá allt öðru sjónarhorni en áður hefur verið mögulegt.

Zipline Akureyri er til húsa í Pálmholti þar sem áður var leikskóli. Þar er góð aðkoma og næg bílastæði. Línusvifið er hringferð sem byrjar og endar þar. Ferðin tekur um eina og hálfa klukkustund. Starfsfólkið er jákvætt, skemmtilegt, þrautþjálfað og heldur vel utan um hópinn. Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum að sögn eigenda og þegar sé fullbókað í töluvert margar ferðir.

Mögnuð upplifun

Blaðamanni Akureyri.net bauðst að fá sér bunu á línunum til að sjá og upplifa þessa nýjung; og fá smá adrenalín í blóðið í leiðinni. Það er skemmst frá því að segja að þetta var mögnuð upplifun og alveg öruggt að ferðirnar verða fleiri.

Svona fer þetta fram:

Þú mætir tímanlega og starfsfólk aðstoðar þig við að setja á þig búnaðinn. Þegar allir eru tilbúnir er örstutt ganga að fyrstu línunni. Tveir starfsmenn renna sér yfir til að taka á móti fólki á hinum endanum. Það er aðeins stuttur gangur á milli línanna en hafa skal í huga að sums staðar er nokkur bratti og göngustígarnir geta verið hálir. Það er því gott að vera í góðum skóm. Við fyrstu línu gæti örlað á smá spennukvíða ef menn eru að gera þetta í fyrsta skipti. Eftir það er hver ferð annarri ánægjulegri í skógi vöxnu umhverfi með fossandi Glerána fyrir neðan sig. Búnaðurinn veitir gott aðhald og öryggi á línunum; sem hafa styrk til að bera nokkra flutningabíla. Búnaðurinn sjálfur er ætlaður fyrir 30-120 kíló. Línurnar eru misjafnlega brattar en hraðinn verður aldrei mjög mikill.

Fimm vinir stofnuðu fyrirtækið

Zipline Akureyri er í eigu fimm vina. Það eru Jón Heiðar Rúnarsson Akureyringur og skógarhöggsmaður, Anita Hafdís Björnsdóttir Reykvíkingur og paragliding-kennari, Samúel Alexandersson, Þráinn Sigurðsson og Ása Einarsdóttir; en þrjú síðastnefndu eru rekstraraðilar Zipline Iceland í Vík og True Adventure (svifvængjaflug).

Anita Hafdís og Jón Heiðar sjá um rekstur Zipline Akureyri. Þeim fannst vanta skemmtilega afþreyingu og áskorun hér í bæinn og ákváðu því að ráðast í þetta verkefni eftir að hafa séð þetta hjá vinum sínum í Vík; fengu þau í lið með sér og skelltu sér í málið.

Pössuðu vel upp á náttúruna

Lögð var áherslu á að falla vel að umhverfinu og valda eins litlu raski og mögulegt væri.

Þau nýttu þá göngustíga sem fyrir voru og allir pallarnir eru byggðir úr trjám af svæðinu.

Jón Heiðar er skógarhöggsmaður, eins og áður hefur komið fram, og vissi því nákvæmlega hvað mátti höggva og tók í raun bara þau tré sem þurfti að taka hvort eð er. Hann sinnir einnig grisjunarverkefni á nákvæmlega þessu svæði, svo hann gjörþekkir skóginn. „Við vildum passa vel upp á náttúruna“, segir Anita Hafdís, „ekki raska of miklu, og opna skemmtilega leið ofan í þetta gullfallega gil. Við höfum gert svæði aðgengilegt þar sem áður var ekki hægt að komast.“

Afþreying sem hentar öllum

„Við Jón Heiðar komum bæði að þessu með þónokkra reynslu úr ferðaþjónustu“, segir Anita Hafdís. „Við vildum gera skemmtilega ferð og skemmtilegan vinnustað og eitthvað sem hentar öllum: Fjölskyldum, vinahópum, vinnustaðahópum og fleirum.“ Hún segir jafnframt að þau hafi mætt mikilli velvild í bænum og hjá bæjaryfirvöldum og bætir við: „Allir mjög spenntir fyrir því að fá sviflínur á Akureyri. Eftir að við opnuðum hefur þetta farið afskaplega vel af stað, eiginlega fram úr okkar björtustu vonum, og töluvert af ferðum sem eru uppbókaðar nú þegar.“

Zipline Akureyri er opið alla daga í sumar kl 10-18. Ferðir eru bókanlegar á vefsíðunni www.zipak.is og einnig er hægt að sérpanta fyrir hópa.