Fara í efni
Mannlíf

„Leit á þetta sem rétta skrefið fyrir mig“

Jakob Snær Árnason sem skrifaði undir samning við KA í dag. Mynd af heimasíðu KA.

Mikla athygli vakti í gær þegar knattspyrnumaðurinn Jakob Snær Árnason yfirgaf Þór og samdi við KA til þriggja og hálfs árs, út leiktíðina 2024. Jakob, sem er 24 ára Siglfirðingur, hefur leikið með Þór í sex ár. Hann var samningsbundinn félaginu í hálft annað ár til viðbótar svo KA keypti Jakob frá Þór.

„Þetta er í raun og veru svolítið viðkvæmt. Það kom upp trúnaðarbrestur á milli mín og þjálfarans og á endanum varð það að samkomulagi að ég myndi yfirgefa félagið,“ sagði Jakob Snær við Akureyri.net í gærkvöldi. „Þegar mér bauðst svo að fara í KA ákvað ég að horfa bara á minn feril; ég er metnaðarfullur, leit á þetta sem rétta skrefið fyrir mig og er mjög spenntur. Ég hef aldrei spilað í efstu deild en tel mig geta bætt KA-liðið og gefið því styrk til að ná sínum markmiðum.“

Vona að fólk sýni þessu skilning

„Það er svekkjandi að svona skyldi fara og ég veit að fólk getur orðið sárt, bæði yfir því að ég sé að fara og yfir því hvert ég fer. Ég átti frábær ár í Þór og þakka öllum fyrir stuðninginn og traustið á þeim tíma. Fólk þekkir mig og veit að ég lagði mig alltaf fram – gerði alltaf mitt besta. Ég er alls ekki fúll út í klúbbinn en hlutirnir þróuðust þannig að ég get ekki spilað fyrir þjálfarann og ég vona að fólk sýni þessu skilning,“ sagði Jakob Snær.