Fara í efni
Mannlíf

Leggja til breytingu úr sjö hæðum í sex

Hér eru byggingarnar eins og þær voru áformaðar, sjö og fimm hæða, felldar inn á ljósmynd af svæðinu. Byggingin til vinstri mun væntanlega lækka um eina hæð með tilliti til afgreiðslu skipulagsráðs. Skjáskot úr tillögu Klettabjargar ehf.

Áform Klettabjargar ehf., lóðarhafa Viðjulundar 1, um byggingu tveggja fjölbýlishúsa eru að taka á sig mynd sem gæti orðið endanleg niðurstaða í málinu. Upphaflega var áformað að byggja tvö sex hæða fjölbýlishús eins og Akureyri.net sagði frá í janúar á þessu ári.

Í maí var tekin fyrir breytt tillaga þar sem gert var ráð fyrir að í stað tveggja sex hæða húsa yrði önnur byggingin fimm hæðir og hin sjö. Meirihluti skipulagsráðs samþykkti þá að leggja til við bæjarstjórn að auglýsa framlagða tillögu með þeim kvöðum meðal annars að vindgreining verði framkvæmd á auglýsingatíma. Einnig lagði skipulagsráð til að haldinn yrði kynningarfundur fyrir íbúa á auglýsingatíma tillögunnar.

Tíu athugasemdir bárust við tillöguna, auk umsagna frá Minjastofnun Íslands og Norðurorku. Skipulagsráð tók málið fyrir í vikunni og leggur meirihluti ráðsins til að gerðar verði breytingar á framlögðum tillögum til að koma til móts við innkomnar athugasemdir. Skulu breytingar gera ráð fyrir því að fyrirhugað sjö hæða fjölbýlishús verði lækkað niður í sex hæðir. Þrjár íbúðir eru á hverri hæð og því samtals 36 íbúðir miðað við upphafleg áform, en fækkar í 33 miðað við niðurstöðu skipulagsráðs.

Vindgreining sem framkvæmd var af umsækjanda sýnir að mati ráðsins mögulega óæskileg áhrif á göngustíg norðan lóðarinnar og telur skipulagsráð að huga þurfi að þeirri niðurstöðu.