Fara í efni
Mannlíf

Leðurjakkinn og víðari buxur aftur í tísku

Karlmenn sem eiga góðan leðurjakka inni í skáp ættu að dusta af honum rykið. Tími leðurjakkanna er aftur runninn upp ef eitthvað er að marka spekingana hjá herrafataversluninni JMJ og tískuvöruversluninni Joe´s á Akureyri.

Akureyri.net fór á búðarráp og kynnti sér hausttískuna hjá karlmönnum en sambærileg umfjöllun var nýlega birt um kvenmannstískuna – sjá hér.

Yfirskyrtan góð yfirhöfn

Undanfarið hafa primaloft úlpur verið afar vinsælar yfirhafnir hjá báðum kynjum en að sögn feðganna Ragnars Sverrissonar og Jóns Marinós Ragnarssonar, hjá JMJ og Joe´s, verður leðurjakkinn með endurkomu í vetur. Þeir feðgar hafa smám saman verið að taka haustvörurnar upp úr kössum, meðal annars leðurjakka með primaloftsáferð, sem henta vel þeim sem eru orðnir vanir primalofts-útlitinu, en vilja samt fylgja tískunni og færa sig yfir í leðrið. Halldór hjá Imperial er sammála þessu, mittissíðir leðurjakkar með kínakraga koma sterkir inn í vetur. Þá segir hann að hálfsíðir frakkar séu líka gott val inn í veturinn.

Nýjasta nýtt! Leðurjakkar í ýmsum sniðum verða í tísku í vetur. Hér sýnir Jón Marinó Ragnarsson leðurjakka sem er stunginn eins og primaloft úlpa.

Önnur yfirhöfn sem kemur sterk inn nú í haust að sögn feðganna í JMJ er yfirskyrtan. Yfirskyrtan er flík sem er eins og vinnuskyrta í útliti en er fóðruð að innan svo hún nýtist vel sem yfirhöfn t.d. með þunnum ullarpeysum innanundir eða með vesti. „Vetraryfirhafnirnar eru yfirleitt dökkar, því karlmenn sækja í íhaldssemina þar,“ segir Ragnar og bætir við að karlmennirnir skreyti sig í staðinn með litríkum treflum og klútum.

Yfirskyrtur eru innblásnar af klæðnaði kanadískra skógarhöggsmanna og henta skyrturnar vel sem yfirhafnir með þunnum ullarpeysum innanundir eða með primaloft vestum. Þessi er frá merkinu Fat Moose.

Grófar peysur og rúllukragi

Fatamerkið Clean Cut Cophenhagen á sér marga aðdáendur en þar er nú mikið um skyrtur með hörfýlingi, þ.e.a.s. litirnir eru koxaðir og áferðin minnir á hör þó skyrturnar séu úr bómull. Eins eru kínakragar áberandi. Þá hefur JMJ verið með skemmtilegar skyrtur í sölu bæði stuttarerma og síðerma frá merkinu Desoto en þær eru úr jersey efni og þó það sé skyrtuútlit á þeim þá er tilfinningin að bera þær eins og að vera í góðum bol. Ullarpeysur eru alltaf klassískar á þessum árstíma en að sögn Ragnars er meira um smáatriði á þeim í ár hjá eldri herrum, smáatriði á borð við rennilása eða annað skraut. Grófar peysur eru alltaf vinsælar á þessum árstíma, hvort sem eru heilar eða hnepptar að sögn Halldórs hjá Imperial og þá koma rúllukragapeysur sterkar inn. Jón Marinó segir að rúllukragapeysurnar henti einkar vel við staka jakkafatajakka þegar karlmenn vilji vera fínir en samt ekki of fínir.

Einlitar háskólapeysur og einlitir bolir eru alltaf góð kaup, segir Jón Marinó sem sýnir hér dæmi um litina sem nú eru ríkjandi.

Skálmarnar eru að víkka hjá strákunum án þess að þær verði útvíðar. Hér er dæmi um „Loose fit jeans“ frá H&M.

Vetrarlitir hjá Dressman; ólífugrænn og dökkbrúnn.

Ólífugrænn og víðari skálmar

Hvað buxnasniðin varðar þá eru yngri karlmenn enn hrifnir af skinny strecht buxum en hægt og rólega er þó að lofta meira um leggina. Halldór Magnússon í versluninni Imperial segir að skálmarnar á karlmannsbuxunum séu að víkka án þess þó að verða útvíðar, 20-22 cm breiðar skálmar að neðan eru einna vinsælastar hjá honum, en gallabuxnaúrvalið í Imperial er breitt svo allir ættu að finna snið sem hentar. Þá heldur hettupeysan vinsældum sínum enda einstaklega þægileg og góð flík í skólann að sögn Halldórs. Hvað varðar liti og mynstur þá eru litirnir í heildina dempaðri núna en í sumar. Navy blár er alltaf klassískur en þeir sem vilja meiri liti geta farið í aðeins skærari bláan eða vínrauðan hjá Imperial. Góð einlit háskólapeysa og einlitir bolir í fallegum tónum eru góð kaup inn í haustið að sögn Jóns Marinós hjá Joe´s en karríbrúnn er nokkuð áberandi í versluninni hjá þeim, en eins er ólífugrænn að sækja í sig veðrið. Það sama er upp á teningnum hjá Dressmann, en þar á bæ hefur ólífugrænum flíkum og brúnum verið að fjölga en blaðamaður var þó aðeins of snemma á ferðinni þar sem útsölu á sumarvörum var ekki lokið, og því ekki mikið af haustvöru komið í verslunina.

Ragnar hjá JMJ með úrval af ullarpeysum vetrarins fyrir framan sig. Litirnir eru í náttúrulegum tónum á borð við kamel, brúnan og ólífugrænan.

Strigaskór úr leðri halda velli í vetur.

Þægilegu stretch buxurnar frá Clean Cut Cophenhagen hafa slegið í gegn hjá íslenskum karlmönnum. Kjartan Ingvar Jósavinsson starfsmaður Joe´s er hér með köflóttar slíkar buxur í höndunum sem fara vel við einlitar skyrtur eða rúllukragapeysu.

Gróf peysa er nauðsynleg flík inn í haustið og jafnvel hálfsíður frakki. Þessar flíkur eru úr Imperial.