Fara í efni
Mannlíf

Lautin: 25 ára afmæli fagnað með hátíð

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur skemmti gestum í afmæli Lautarinnar. Mynd: akureyri.is

Á Akureyri er starfrækt athvarf sem kallast Lautin og er fyrir fólk með geðraskanir. Á dögunum fagnaði Lautin 25 ára afmæli og af því tilefni var haldin hátíð með veitingum og gleði, eins og segir í frétt á vef Akureyrarbæjar.

Að sögn Sólveigar Baldursdóttur, fagmanns í Lautinni, heppnaðist afmælishátíðin einstaklega vel og meðal annars mætti tónlistarmaðurinn Svavar Knútur til að skemmta gestum. „Hann er algjör kærleiksbjörn sem mætir með birtu og hlýju alls staðar sem hann kemur, fyrir utan hvað hann er skemmtilegur,“ segir Sólveig í fréttinni.

Markmið Lautarinnar er að rjúfa félagslega einangrun, auka lífsgæði þeirra sem glíma við geðræna sjúkdóma og draga úr fordómum í samfélaginu. Lögð er áhersla á að skapa heimilislegt andrúmsloft, þar sem gestir koma á eigin forsendum. „Það skiptir óhemju miklu máli að rjúfa einangrun þessa hóps. Að mæta í Lautina hjálpar mörgum að halda rútínu og getur í raun hjálpað mörgum að halda sér á floti – og jafnvel komið í veg fyrir innlagnir,“ segir Sólveig.. Hún segir ennfremur að Lautin sé fyrir alla – eina skilyrðið er að fólk sé ekki undir áhrifum.

Meðal þess sem boðið er upp á í Lautinni er gönguhópur, slökun og prjónaklúbbur og alltaf er boðið upp á heitan mat í hádeginu. Að jafnaði er opið í Lautinni milli kl. 9 og 15 en á Þorláksmessu verður opið til kl. 12 og síðan frá kl. 10-14 dagana 29. og 30. desember.