Fara í efni
Mannlíf

Laufey Baldursdóttir fór sjötug í Landvættina

Laufey Baldursdóttir í einni af fjórum áskorunum Landvættanna.

Laufey Baldursdóttir, geislafræðingur og tækniteiknari, er í áhugaverðu viðtali á vefsíðunni Lifðu núna, en þar er fjallað um líf og störf þeirra landsmanna sem komnir eru um og yfir miðjan aldur. Laufey er rúmlega sjötug og lætur ekki fjöll eða firnindi stöðva sig í því að njóta lífsins. Hún og eiginmaður hennar, Árni Óðinsson, stunda skíði, gönfuferðir og aðra útiveru af kappi. Svo eru það Landvættirnir.

Í umfjölluninni á Lifðu núna er sagt frá því að Laufey og Árni gangi mikið á fjöll og hafi til dæmis farið á Hvannadalshnjúk, gengið Laugaveginn og farið á Víknaslóðir. Árni er þremur árum eldri en Laufey og þegar þau voru hvort sínu megin við sextugt hélt vinur þeirra upp á sextugsafmæli sitt með því að skála á Kilimanjaro. Hann bauð þeim með og þau slógu til. Þau hafa líka gengið Atlasfjöllin, farið á Toubkal í Marokkó og Laufey gekk Jakobsveginn í fyrra ásamt Katrínu Káradóttur, tengdadóttur sinni.

Sjötugsafmælið í Landvættum

Árni ætlaði að halda upp á sjötugsafmæli sitt með því að taka þátt í Landvættunum, sem felst í því að sigrast á nokkrum mismunandi þrautum, ákveðnar vegalengdir í skíðagöngu, hlaupi/skokki, sundi og hjólreiðum. Sonur þeirra og tengdadóttir ætluðu með í áskorunina, en heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn. Í fyrra, þegar Laufey varð sjötug, kom tengdadóttirin með þá hugmynd að þau færu öll fjögur í þessa áskorun og Laufey tók því þar sem einnig var hægt að fara hálfvætt, helminginn af vegalengdunum sem þau hin ætluðu að fara. Laufey gekk því 25 kílómetra á skíðum, hjólaði 30 kílómetra á fjöllum, skokkaði 16 kílómetra utanvegar og synti 1,7 kílómetra í stöðuvatni. 

Þetta var allt mikil áskorun og ég viðurkenni að mér fannst stundum að þetta væri of mikið því ég fór sannarlega út fyrir þægindaramma minn. En þegar ég fór að æfa sá ég fljótlega að þetta var alveg gerlegt og að ég gæti gert þetta og sé sannarlega ekki eftir því. Þátttaka í Landvættunum var ótrúlega skemmtileg og gefandi reynsla um leið og ég var að sigrast á áskorunum sem mér þóttu í byrjun óyfirstíganlegar. Til þess að geta þetta þarf maður bara að hafa hreyft sig hæfilega um ævina og ég hef trú á svo mörgum á mínum aldri sem gætu gert þetta. Ég vil sannarlega hvetja aðra til að takast á við þessa skemmtun. Nú eru svo margir á okkar aldri frískir ólíkt því sem áður var. Okkur þótti forfeður okkar orðin ansi framlágir þegar þeir voru orðnir sjötugir en nú er öldin allt önnur,“ segir Laufey meðal annars í viðtalinu.

Viðtalið á lifðu núna: Fór í Landvættina sjötug – Lifðu núna (lifdununa.is)