Fara í efni
Mannlíf

Látum vaða ef einhver fær góða hugmynd!

Hrönn Björgvinsdóttir verkefnastjóri á Amtsbókasafninu við frísskápinn fyrir utan safnið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hringrásarhagkerfið er starfsfólki Amtsbókasafnsins hugleikið, ekki aðeins í tengslum við frískápinn, sem Akureyri.net fjallaði um í gær, og áhuga á að sporna gegn matarsóun. Föt og fræ, spil og fleira hefur einnig skipt um eigendur fyrir milligöngu safnsins.

Akureyri.net greindi frá því þegar fræsafn var opnað á Amtsbókasafninu fimmtudaginn 2. mars. Aija Burdikova heldur utan um það verkefni ásamt fleiri áhugaverðum verkefnum á safninu – komum að því síðar. Hún segir fræsafnið vera að erlendri fyrirmynd, eins og frískápinn. Þetta er í raun einfalt og ætlað til að fólk geti losað sig við fræ sem það mun ekki nota og/eða fengið fræ frá öðrum.

„Fólk er líka að fá fræin lánuð, sá fræjunum, safna fræi og koma aftur,“ segir Aija um fyrirmyndirnar erlendis. „Okkur fannst það kannski pínu erfitt á Íslandi, en þetta er líkt og með frískápinn, hugmyndin er að minnka sóun, styðja deilihagkerfið. Fólk sem hefur of mikið getur komið til okkar og einhver annar getur nýtt. Fólk sem veit ekki alveg hvað það á að gera getur líka fengið lánaðar bækur hjá okkur um garðrækt,“ segir hún.

Föndur eftir sögustund á Amtsbókasafninu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Á opnunardegi fræsafnsins var Jóhann Thorarensen garðyrkjumaður á staðnum og leiðbeindi um sáningu fræja. Aija segir að opnun safnsins hafi vakið athygli fólks, sem kom á opnunina og fékk fræ, á því að það átti sjálft fræ heima sem það myndi ekki nota – og muni þá koma aftur eftir nokkra daga með fræ til að gefa í safnið. „Það er ýmislegt sem fólk á heima sem það notar ekki og það er svo gott að einhver annar geti nýtt þetta.“ Hún setti upp fjóra flokka í fræsafninu – matjurtir, kryddjurtir, fjölæringa og sumarblóm – til að auðvelda fólki að finna það sem það vanhagar um.

„Við byrjum bara með lítið borð og ætlum að sjá til hvernig þetta þróast, hvort við þurfum meira pláss eða minna, eða hvort við getum kannski í framtíðinni verið með einhverja afleggjara líka eða eitthvað að þróa þetta áfram. Það eru bara ýmsar framtíðarhugmyndir,“ segir Aija og nefnir einnig að stærri draumur sé að fólk geti sjálft ræktað eitthvað á lóð safnsins.

Láta reyna á allar hugmyndir

Við gætum haldið lengi áfram að tala um viðburði, klúbba og annað sem í boði er á Amtsbókasafninu, fyrir utan kjarnastarfsemina, bækurnar og útlánin. Svala Hrönn Sveinsdóttir verkefnastjóri verður fyrir svörum þegar spurt er um hvernig og hvers vegna allt þetta verður til, hvaðan hugmyndirnar koma.

Félagar í handavinnuklúbbnum Hnotunni eru alltaf með eitthvað á prjónunum. Frá vinstri: Anna Eydís Gasta Friðjónsdóttir, Sandra Kauenhofen, Svala Hrönn Sveinsdóttir og Helen Sif Sigurðardóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Við erum með ansi marga klúbba. Ef starfsfólk fær hugmynd um klúbb þá er bara látið reyna á það og yfirleitt hefur það gengið vel. Við erum til dæmis með tvo borðspilaklúbba, bæði fyrir börn og fullorðna, við erum með handavinnuklúbb, íslenskuklúbb, vatnslitaklúbb, við erum með sögustundir, skapandi skrif ...“ segir Svala Hrönn og Aija skýtur inn í að á næstunni fari kvikmyndaklúbbur í gang á safninu.

Svala Hrönn heldur áfram að fræða okkur um þessi verkefni öll, í framhaldi af umræðum um fræsafnið. „Af því að við elskum hringrásarhagkerfið þá höfum við oft verið með skipti – við höfum nokkrum sinnum verið með fataskipti. Fyrir öskudaginn vorum við með búningaskipti þannig að fólk kom með búninga og gat tekið aðra í staðinn. Við höfum verið með plöntuskipti, spila- og púslskipti, skiptimarkað fyrir jólasveina fyrir jólin. Þetta er svona ýmislegt og það er í raun bara ef einhver fær hugmynd, þá látum við vaða,“ segir Svala.

Aija minnist á kvikmyndaklúbbinn sem við nefndum áðan. „Kvikmyndaklúbburinn sem er að byrja núna í mars, það er kona sem býr í bænum sem kom með þessa hugmynd og við erum í sameiningu að hjálpa henni að koma þessu af stað þannig að það er bara æðislegt að það eru svo margir sem eru með góðar hugmyndir,“ segir hún. Kvikmyndaklúbburinn og íslenskuklúbburinn eru þannig báðir til að frumkvæði kvenna af erlendum uppruna sem hér búa.

Hrönn Björgvinsdóttir verkefnastjóri segir að stundum sé dálítið púsl að setja saman dagskrána og finna öllum viðburðunum tíma. „Stundum gætum við alveg nýtt meira pláss, en við reynum að koma þessu þannig fyrir að það sé hægt að hafa þetta. Hér eru viðburðir nánast upp á dag og stundum margir á dag,“ segir Hrönn.

Aija Burdikova heldur utan um það verkefni sem fræsafnið er. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tækifærin til að æfa íslenskuna nauðsynleg

Aija Burdikova er, eins og nafnið bendir til, af erlendum uppruna, en talar íslensku betur en margir Íslendingar. Hún hefur búið á Íslandi í átta ár og hefur mikinn áhuga á að auðvelda fólki með íslensku sem annað tungumál að læra og æfa sig í íslenskunni. Slíkt var í boði fyrir einhverjum árum á vegum Lionsklúbbsins Ylfu, en var hætt.

„Þegar ég byrjaði að vinna hér fyrir um ári síðan langaði mig að hafa þetta aftur hérna á safninu. Mér fannst svo mikil þörf á einhverri kennslu og æfingamöguleikum af því að það er ekki mörg tækifæri til staðar á Akureyri,“ segir Aija. Hún hefur umsjón með íslenskuverkefninu sem unnið er með hjálp sjálfboðaliða sem hafa íslensku sem móðurmáli. „Þetta er fyrir fólk sem er með íslensku sem annað mál og vill læra og vill halda áfram að læra og æfa sig. Við notum efni sem við eigum til á safninu, bæði kennslubækur og borðspil og ýmislegt, til að hjálpa fólki sem hefur annars fá tækifæri til að læra og æfa sig.“

Klúbburinn gagnast ekki aðeins fólki við að æfa sig í íslenskunni heldur hefur fólk þar kynnst og hittist utan klúbbatímans. Fram undan er líka áhugavert verkefni. „Í apríl erum við að fara í samstarf við tvær konur sem eru að hanna borðspil fyrir fólk sem er að læra íslensku. Þær ætla að koma hingað og kynna spilið og fólk fær tækifæri til að prófa. Það er spennandi,“ segir Aija Burdikova, bókavörður á Amtsbókasafninu.

Íslenskunámið tengist svo einnig öðru alþjóðaverkefni sem haldið hefur verið fimm sinnum áður á Akureyri og í fyrsta skipti á safninu í fyrrahaust, alþjóðlega eldhúsinu þar sem fólk kemur með erlenda rétti og gestir fá að smakka.

Hrönn Björgvinsdóttir, Svala Hrönn Sveinsdóttir og Aija Burdikova. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bókasöfnin breytast

Þátttakan í verkefnum og viðburðum á vegum safnsins getur verið mjög mismunandi eftir dögum, árstímum, verkefnum, veðri og öðru. Allt frá því að vera fimm manns upp í fjörutíu. En er þetta skipulögð og yfirlýst stefna safnsins, eða ríkjandi menning innan vinnustaðarins að gera svona margt sem segja mætti að sé „út fyrir bókasafnið“. Segir Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður aldrei nei?

Þær benda á að bókasöfn hafi verið að breytast á undanförnum árum og séu orðin mun fjölbreyttari menningarstofnanir en áður. „Eigendur bókasafnsins eru bæjarbúar og margt af þessum klúbbum er einmitt ekki endilega eitthvað sem við erum með,“ segir Hrönn. „Til dæmis vatnslitaklúbburinn, það er bara kona sem hafði áhuga á að kenna vatnslitun. Hún mætir hingað og er með þennan hóp. Eins er með skapandi skrifin, það er ekki starfsfólk hérna sem kemur að því.“ Hrönn segir að safnið taki slíku klúbbastarfi opnum örmum.

Notkun bókasafna hefur breyst. Einhver fækkun hefur orðið á gestum frá því fyrir heimsfaraldurinn, en samkvæmt teljurum við innganginn koma um 3-400 manns í safnið daglega að meðaltali, voru á bilinu 4-500 fyrir faraldur. Umferðin er svo auðvitað misjöfn eftir árstímum, dögum og viðburðum sem eru í gangi. Útlánum hefur fækkað ef litið er 30 ár aftur í tímann, en til dæmis frá því í fyrra hefur gestum safnsins fjölgað, þó svo útlánin standi í stað, að sögn Hrannar. „Fólk er að koma og nota safnið,“ segir Hrönn.

Starfsfólk safnsins er ekki aðeins frumlegt við að finna upp á verkefnum og klúbbum til að starfrækja í safninu heldur hefur það einnig verið virkt á samfélagsmiðlum og til dæmis vakið athygli og kátínu á TikTok. Auðvelt er að finna samfélagsmiðlana undir heitinu „amtsbokasafnid“ á TikTok og Instagram og „amtsbok“ á Facebook.

Amtsbókasafnið á TikTok
Amtsbókasafnið á Facebook
Amtsbókasafnið á Instagram