Fara í efni
Mannlíf

Kunna prýðilega við sig í fangelsinu!

Skrásetningarskírteini, reyndar ekki vegna bíls, heldur Miele reiðhjóls með hjálparvél sem skrásett er nýtt 27. júní 1956. Rautt að lit, númerið A 45 og fyrsti eigandi Jón Sigurgeirsson, skólastjóri

Kristinn Örn Jónsson og Fjölnir Sigurjónsson njóta sína vel í fangelsinu á Akureyri um þessar mundir. Rétt er að taka fram strax að báðir eru alsaklausir af öllu öðru en því að stunda þar sjálfboðavinnu fyrir Minjasafnið – enda muna líklega flestir að fangelsinu var lokað fyrir skemmstu, þegar niðurskurðarhnífnum var brugðið á loft í höfuðstöðvum dómsmála lýðveldisins.

Fjölnir er mikill bílaáhugamaður og Kristinn, sem er ökukennari, segist mikill áhugamaður um gömul bílnúmer. Þeir sitja nú við að mynda skráningarspjöld úr fórum Bifreiðaeftirlits ríkisins, þeirrar sálugu stofnunar. „Svona spjöld voru notuð áður en allt varð rafrænt, við erum að mynda spjöld frá 1942 til 1982, en það eru til eldri spjöld,“ segir Kristinn við Akureyri.net. „Þegar maður kom með bíl í skoðun í gamla daga gaf maður upp númerið á bílnum og þá var spjaldið sótt í kassa; þar sáu þeir allar upplýsingar, vélarstærð og verksmiðjunúmer, hvaða skráningarnúmer hafði verið áður á bílnum - ef svo var - og hverjir hefðu átt hann. Aftan á var svo skráð hvort númerið hafði einhvern tíma verið lagt inn, eins og margir gerðu á veturna á þeim árum.“

Handónýtur!

Gífurlegt magn af spjöldum var á Héraðsskjalasafninu á Akureyri en tóku of mikið pláss þannig að til stendur að senda allt á Þjóðskjalasafnið í höfuðborginni. Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndadeilar Minjasafnsins, fékk suðurferð spjaldanna frestað og ákveðið var að ljósmynda hvert einasta, sum báðum megin, þannig að heimildirnar yrðu altjent til á safninu hér nyrðra. 

„Fyrst var talað um að þetta yrðu líklega um 35 þúsund myndir en okkur sýnist það frekar vera á milli 50 og 60 þúsund! Við byrjuðum á þessu verkefni 27. október, höfum sem sagt verið að í mánuð, og eru búnir með 13 þúsund. Það er því nóg eftir!“ segir Kristinn og skemmtir sér vel. „Við höfum mjög gaman af þessu og af því við erum áhugamenn um bíla og númer er mjög margt sem þarf að ræða og rifja upp. Við rákumst til dæmis á spjald um daginn þar sem skráður var gamall austur-þýskur bíll af gerðinni P70, gerður úr plasti ef ég man rétt, einskonar undanfari Trabantsins. Skoðunarmenn skrifuðu oft athugasemdir á spjöldin, stundum að bíll væri ónýtur - en við höfðum orð á því að skoðunarmaðurinn hefði sennilega verið búinn að fá alveg nóg af þessum bíl því rækilega var merkt að hann væri handónýtur - skrifað með rauðu!“

Kristinn nefnir annað, og hlær: „Á sum spjöldin er stimplað orðið viðtæki - það var gert þegar útvarp var í bílnum. Þá þurfti nefnilega að greiða útvarpsgjald fyrir tækið í bílnum og sýna kvittun frá Ríkisútvarpinu, þegar komið var með bíl í skoðun, til að sanna að búið væri að greiða gjaldið! Sumir áttu það að vísu til að rífa útvarpið úr áður en farið var með bílinn í skoðun en það er önnur saga ...“

Fjölnir Sigurjónsson situr og myndar, Kristinn Örn Jónsson er í miðjunni og Daníel Guðjónsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn á Akureyri, sem kíkti í heimsókn, er lengst til hægri.