Fara í efni
Mannlíf

Kosning á fugli ársins: forval er hafið

Heiðlóa - fugl ársins 2021. Mynd af vef Fuglaverndar.
Heiðlóa - fugl ársins 2021. Mynd af vef Fuglaverndar.

Annað árið í röð stendur Fuglavernd fyrir kosningu á fugli ársins. Valdir hafa verið 20 tegundir sem keppa um að komast áfram og eru allar kynntar á vef Fuglaverndar.

„Kynntu þér keppendur og taktu þátt með því að velja þann fugl sem þú vilt sjá keppa um titilinn Fugl ársins 2022 – fimm fuglar komast pottþétt áfram, kannski fleiri!“ segir á vefnum.

Forvalið hófst 10. ágúst og fer fram rafrænt til 10. ágúst á vefsíðu keppninnar.

Úrslitakosningin um Fugl ársins 2022 verður dagana 5.- 12. september og verður sigurvegari ársins kynntur þann 16. september á Degi íslenskar náttúru. Á síðasta ári sigraði heiðlóa í kosningunni. 

„Markmiðið með kosningu á fugli ársins á ný er að draga fram nokkrar fuglategundir sem finnast hér á landi og fjalla um mikilvæg búsvæði og fæðuval þeirra og einnig að líta á áætlaðar stofnstærðir þeirra og stöðu stofnanna í Evrópu og hér á Íslandi. Það getur verið áhugavert að sjá muninn á þessum þáttum á milli tegundanna sem kynntar eru,“ segir á vef Fuglaverndar.

„Með þessu vill Fuglavernd leggja sitt af mörkum um að efla fræðslu, samtal og umfjöllun um stöðu fuglastofna hér á landi og um mikilvægi fugla í lífríkinu. Íslandi hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að fuglum, hér eru tiltölulega fáar tegundir en hjá sumum þeirra eru hlutfallslega stórir stofnar og Ísland því mikilvægt land fyrir fugla ekki síður en okkur mannfólkið.“

Smellið hér til að taka þátt í kosningunni