Fara í efni
Mannlíf

Kjass leikur gamalt og nýtt á Græna hattinum

Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og hljómsveitin sem leikur með henni í kvöld. Ljósmynd: Daníel Sta…
Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og hljómsveitin sem leikur með henni í kvöld. Ljósmynd: Daníel Starrason.

Tónlistarkonan Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir heldur tónleika ásamt hljómsveit á Græna hattinum í kvöld en Fanney vinnur nú að plötu, þeirri annarri undir listamannsnafninu Kjass. Sú fyrri, Rætur, kom út árið 2018 og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokki djass- og blústónlistar. Nú er skrefið stigið í áttina að popp- og rokktónlist og mun platan koma út síðar á þessu ári.

Í kvöld flytja Fanney og hljómsveitin lög af nýju plötunni ásamt nokkrum eldri lögum. Hljómsveitina skipa auk Fanneyjar gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson, Rodrigo Lopes trommuleikari og bassaleikarinn Stefán Gunnarsson. Sérstakur gestur á tónleikunum er sellóleikarinn Ásdís Arnardóttir, bæjarlistamaður Akureyrar.

Samkoman í kvöld er hluti af tónleikaröðinni Í túninu heima, sem er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarbæjar.