Fara í efni
Mannlíf

Kennarinn of seinn í próf en allir rólegir!

Eva og Rozalin kynntust í gegnum skiptinám í Háskólanum á Akureyri. Þær hafa myndað með sér góðan vinskap en brátt skilja leiðir þegar þær halda til síns heima í Þýskalandi. Akureyri á þó stórt pláss í hjarta þeirra eftir dvölina. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

80 erlendir háskólanemar stunda nám við Háskólann á Akureyri þetta skólaárið. Akureyri.net spjallaði við tvo þeirra um upplifun þeirra af skólanum og dvölinni á Akureyri.

Skiptinám er valkostur sem stendur flestum nemendum Háskólans á Akureyri til boða. Flestir fara í skiptinám til Norðurlandanna en margir aðrir áhugaverðir valkostir eru í boði. Til dæmis gekk skólinn nýlega frá samstarfssamningi vegna skiptináms við háskóla á Tenerife. Að sögn Rúnars Gunnarssonar, forstöðumanns miðstöðvar alþjóðasamskipta hjá HA, koma þó yfirleitt fleiri erlendir skiptinemar til þeirra heldur en fari frá þeim í skiptinám erlendis.

Þetta skólaár eru 80 erlendir skiptinemar í skólanum sem fyrr segir, allir í venjulegu skiptinámi auk þess sem það koma 4-10 skiptinemar í verknám á hverju ári í hjúkrunarfræði og iðjuþjálfum. Á móti fara aðeins í kringum 30 nemendur frá HA erlendis í skiptinám. Segir Rúnar þetta helgast af því að íslenskir nemendur vinna meira með námi heldur en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Þá er meðalaldur nemenda í íslenskum háskólum einnig hærri en annastaðar og ekki óalgengt að nemendur séu komnir með börn sem gerir möguleika á skiptinámi flóknari.

80 skiptinemar stunda nám við Háskólann á Akureyri þetta skólaár. Hér má sjá hluta af hópnum. Ljósmynd: Rúnar Gunnarsson

Voru ekki spenntar fyrir Akureyri

Eva Schramm og Rozalin Yaman hófu nám við Háskólann á Akureyri síðastliðið haust og hafa því búið á Akureyri í fjóra mánuði en halda brátt til síns heima.

„Ég vildi ekki endilega koma til Akureyrar heldur bara til Íslands. Það var náttúran sem heillaði mig. Háskólinn minn í Þýskalandi bauð mér pláss á Akureyri og þar sem mig hafði alltaf langað til að sjá Ísland sagði ég já,“ segir Rozalin spurð að því af hverju Akureyri varð fyrir valinu og Eva tekur undir þetta.

Þótt Akureyri hafi ekki endilega verið efst á óskalistanum segja þær að í dag myndu þær velja Akureyri fram yfir Reykjavík. „Okkur finnst við virkilega eiga heima hérna núna og það verður sárt að fara héðan. Fyrst þegar ég kom hingað fannst mér ekki mikið um að vera í bænum en svo áttaði ég mig á því hvað það er mikið af fallegum stöðum hérna allt um kring, það er virkilega undravert.“

Rozalin býr í stórborginni Essen þar sem íbúar eru um 580 þúsund. Viðbrigðin voru því mikil fyrir hana að flytja til Akureyrar, meiri en fyrir Evu sem kemur frá um 2000 manna bæjarfélagi í Bæjaralandi. „Þegar ég las um Akureyri á netinu hugsaði ég; bærinn er svo lítill, hvað get ég eiginlega gert hérna? Lært og hangið heima?“rifjar Rozalin upp. Hún komst þó fljótt að því að þrátt fyrir smæð bæjarins var hér líflegt skemmtanalíf, sem gladdi hana mjög. „Bærinn er líka bara svo sætur, ég elska að ganga um hann og horfa fjöllin.“

Eva segir staðsetningu Akureyrar vera stóran kost því þaðan sé stutt í ýmsa fallega og áhugaverða staði, þ.e.a.s. ef fólk er með bíl. Báðar hafa þær verið duglegar við að skoða sig um í nágrenninu og víðar á Íslandi og eru þær fullvissar um það að þær eigi eftir að koma aftur til landsins. „Ég ætla að koma næsta sumar sem ferðamaður með fjölskyldu minni en ég gæti alveg hugsað mér að koma aftur og búa hérna í ár eða svo og fá að upplifa allar árstíðirnar,“ segir Eva og Rozalin tekur undir það.

„Við fórum að æfa í líkamsræktarstöð hér í bænum en líkamsræktarstöðin var að loka en við fengum bara að vera þar áfram og okkur bara sagt að slökkva ljósin og læsa á eftir okkur,“ segir Eva sem dæmi um það traust sem ríkir meðal Íslendinga. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Íslendingar vinalegir og afslappaðir

Það er ekki bara náttúran sem hefur heillað stelpurnar heldur líka þjóðin sem þær segja að sé mjög vinaleg en feimin. „Ég er mjög hrifin af hugarfari Íslendinga. Þeir eru svo afslappaðir og rólegir. Ég er ekki vön því. Til dæmis ef þú ert sein, þá er það ekki vandamál eins og það væri í Þýskalandi. Ég er alltaf á síðustu stundu með allt, svo það hentar mér mjög vel að búa hér,“ segir Rozalin. „Meira að segja þá var kennari sem kom of seint í próf. Allir nemendurnir voru mættir og biðu bara eftir honum. Það hefði aldrei gerst í Þýskalandi, aldrei.“

Þá nefna þær regnbogafánana við margar kirkjur á Íslandi og hversu opnari Íslendingar virðast vera gagnvart hinsegin fólki. Að þeirra sögn yrðu kirkjur í Þýskalandi seint málaðar í regnbogalitum. „Þá ríkir líka bara svo mikið traust hérna. Ég fór með vinum að æfa í líkamsræktarstöð hér í bænum. Líkamsræktarstöðin var að loka en við fengum að vera áfram og okkur bara sagt að slökkva ljósin og læsa á eftir okkur. Þau þekktu okkur ekkert og öll tól og tæki voru þarna eins og ipadar og fleira. Við hefðum getað skemmt eitthvað eða stolið öllu,“ segir Eva alveg hissa á þessari upplifun og Rozalin bætir við; „Fyrir ykkur Íslendinga er þetta bara eðlilegt en væri óhugsandi í Þýskalandi. Eins og það að læsa ekki bílum eða heimilum. Í ákveðnum smábæjum í Þýskalandi er það hægt, en t.d. í borginni sem ég bý í er það óhugsandi. Glæpatíðnin þar er mjög há og húsgögnin þín væru horfin á innan við klukkustund. Það er algjör andstæða við það sem er hér.“

Ánægðar með aðstöðuna í HA

Talið berst að Háskólanum á Akureyri og hvort skólinn hafi staðið undir væntingum þeirra. Þær segja að svo sé. Skólinn sé afar nútímalegur og þá hæla þær tæknilegum innviðum skólans. „Líkamsræktin er frábær og aðstaðan í kaffiteríunni er líka ótrúlega flott, þú getur geymt matinn þinn í ísskáp og hitað hann upp. Við erum hvorki með svoleiðis aðstöðu né líkamsrækt í okkar háskólum.“ Þá nefna þær að námskeiðin sem þær hafi tekið í HA hafi verið með mun færri nemendum en þær eru vanar úti og þannig hafi aðgengi að kennurum líka verið mun betra og kennslan persónulegri. „Þegar nemendurnir eru 200 á hverju námskeiði þá ertu ekki með neina tengingu við kennarann þinn, kennararnir þekkja þig ekki með nafni, svo munurinn er mikill hvað þetta varðar hér á Akureyri.“

Hvað gæði námsins varðar segja þær að sum námskeiðin hafi verið auðveldari en önnur, svo það hafi verið góð blanda og efnið staðið undir væntingum. „Mér finnst líka alveg frábært að ef þú kemst ekki í kennslustund þá geturðu tekið þátt á netinu eða horft á upptökur á eftir,“ segir Eva. Þá hæla þær gæðunum á streymi og upptökum. „Það sem er líka alveg klikkað er að við erum með lykil af skólanum sem gefur okkur aðgang að aðstöðunni í skólanum hvenær sem okkur hentar, bæði seint og snemma. Það er ótrúlega gott,“ segir Rozalin.

Frá jólahlaðborði skiptinema í Háskólanum á Akureyri en þar var boðið upp á íslenskan jólamat. Ljósmynd: Rúnar Gunnarsson

Föst á Goðafossi í fimm tíma

Eftir alla þessa lofræðu um bæinn, íslenska þjóð og háskólann þá hlýtur að vera eitthvað sem þær geta sett út á til að botna spjallið? „Strætóáætlunin er stundum frekar skrýtin hérna, t.d. eru varla strætóferðir um helgar. Þá opna matvöruverslanir líka mjög seint. Í borginni minni opna þær kl. 6 á morgnana,“ segir Rozalin og bætir við að hún sakni í raun einskis frá Þýskalandi nema fjölskyldu sinnar. „Þá er erfitt að fara eitthvað um landið nema í einkabíl og það væri frábært ef það væri einhver rafrænn vettvangur þar sem fólk gæti skipulagt sig í bíla saman til að fara í skoðunarferðir um landið,“ segir Eva sem hefur fundið fyrir því hversu illa almenningssamgöngur henta í skoðunarferðir. „Ég fór einu sinni með strætó á Goðafoss. Ég varð að vera þar í 5 klst. til að geta tekið tekið eina strætó dagsins tilbaka,“ segir Eva og bætir við að þó fossinn sé fagur séu fimm tímar við hann fullmikið af hinu góða. „En ég þekki hvern stein þar núna,“ segir hún og hlær.

„Ég er mjög hrifin af hugarfari Íslendinga. Þeir eru svo afslappaðir og rólegir. Ég er ekki vön því. Til dæmis ef þú ert sein, þá er það ekki vandamál, eins og það væri í Þýskalandi. Ég er alltaf á síðustu stundu með allt svo það hentar mér mjög vel að búa hér,“ segir Rozalin. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir