Fara í efni
Mannlíf

KA/Þór fallið úr efstu deild í handbolta

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór féll úr efstu deild kvenna i handbolta þegar liðið tapaði 26:23 fyrir Fram í Reykjavík á laugardaginn, í lokaumferð Olísdeildarinnar.

Möguleikar Stelpnanna okkar á að halda sæti í Olísdeildinni voru ekki miklir fyrir lokaumferðina því til að eiga möguleika á því þurftu þær að vinna sterkt lið Fram á útivelli.

Eftir að Nathalia Soares gerði fyrsta mark leiksins fyrir KA/Þór setti heimaliðið í fluggír og gerði næstu 11 mörk; staðan var orðin 11:1 þegar 12 mínútur voru liðnar. Þá var í raun strax orðið ljóst hver örlög Akureyrarliðsins yrðu. Staðan í hálfleik var 16:8.

Framarar drógu aðeins úr hraðanum í seinni hálfleik á sama tíma og gestirnir gerðu allt hvað þeir gátu til þess að ná óvænt í stig úr leiknum. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var munurinn kominn niður í þrjú mörk, með fádæma baráttuvilja leikmanna KA/Þórs og næst komust gestirnir tveimur mörkum frá Frömurum. Það var glæsilega gert en nær komst KA/Þór ekki.

Aðeins eru þrjú ár síðan KA/Þór var besta lið landsins, varð bæði Íslands- og bikarmeistari, en ástæður þess hve frammistaða liðsins hefur  dalað er öllum ljós. Nánast allt byrjunarliðið veturinn 2020 til 2021 er horfið á braut. Segja má að aðeins markvörðurinn, Matea Lonac, sé eftir. Aðrir máttarstólpar héldu í víking og sömdu við lið erlendis, lögðu skóna á hilluna eða hafa glímt við meiðsli, auk þess sem þrír lykilmenn eignuðust barn og hafa ekki leikið þess vegna. Lið KA/Þórs er að mestu skipað ungum og mjög efnilegum leikmönnum og enginn vafi er á því að þær verða komnar í efstu deild á ný áður en langt um líður.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.