Fara í efni
Mannlíf

Karlakórinn tók lagið „heima“ í Lóni

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Félagar úr Karlakór Akureyrar - Geysi þáðu boð eigenda Hótels Akureyrar við Hafnarstræti fyrir skömmu og „kynntu sér“ morgunverðarhlaðborð hótelsins á fallegum sunnudagsmorgni auk þess að taka lagið fyrir starfsmenn og gesti á veitingastaðnum Lóni á jarðhæð hótelsins. Skemmtilegt uppátæki en það væri tæpast í frásögur færandi nema vegna sögulegrar tengingar kórsins við staðinn og nafnið. Við þetta tækifæri fékk akureyri.net að vera fluga á vegg.

Valmar Väljaots, stjórnandi karlakórsins, lék á harmonikuna í nokkrum sönglaganna og í einu þeirra blés kórfélaginn Wolfgang Frosti Sahr í saxófóninn. Snorri Guðvarðsson, fyrrverandi formaður karlakórsins, fylgdist grannt með öllu og tók snilldina upp á símann.

Tveir karlakórar voru stofnaðir í bænum snemma á öldinni sem leið, Geysir 1922 og Karlakór Akureyrar sjö árum síðar, en þeir svo sameinaðir þegar áratugur lifði af öldinni.

Þannig er að Karlakórinn Geysir átti hús sem kallaðist Lón í þrjá áratugi eftir miðja öldina og það sem meira er, gamla Lón er nú hluti Hótels Akureyrar, næsta hús við veitingasalinn þar sem karlarnir sungu um daginn. Lón kallaðist Dynheimar um tíma eftir að kórinn seldi það og var þá æskulýðsmiðstöð og skemmtistaður unglinga.

Það var snemma á fimmta áratugnum sem Geysisfélagar hófu að ræða nauðsyn þess að kórinn eignaðist húsnæði. Hann hafði m.a. æft í Menntaskólanum en var oft á hrakhólum, 1944 var kosin nefnd um byggingu æfingahúss og ári síðar festi kórinn kaup á húseigninni Hafnarstræti 73, þar sem m.a. hafði verið bíó, smjörlíkisgerð og samkomusalur Frímúrara.


Þorsteinn Þorsteinsson, byggingameistari frá Skipalóni, lengi ein helsta driffjöður í starfsemi kórsins og einn helsti hvatamaður að kaupunum, lést árið áður en kórinn eignaðist húsið. Þorsteinn var jafnan kenndur við fæðingarstaðinn – kallaður Þorsteinn frá Lóni – og það var í virðingarskyni við hann sem Lónsnafnið var valið á húsið.

Geysir átti húsið til 1971 er hann seldi það Akureyrarbæ. Nú er Hafnarstræti 73 hluti Hótels Akureyrar sem fyrr segir – sá hluti kallast Dynheimar, en Lón er í Hafnarstræti 75, byggingu sem reis á undraskömmum tíma á síðasta ári og var raunar á dögunum valið fallegasta nýbygging á Íslandi á síðasta ári af áhugahópi um framtíð arkitektúrs – smellið hér til að sjá þá frétt.