Fara í efni
Mannlíf

Kaffið kætir, hressir og bætir

Svenni á Berlín byrjaði seint að drekka kaffi. Í dag drekkur hann þrjá tvöfalda espressó á dag.

Kaffi er einn vinsælasti drykkur heims og í tilefni af alþjóðlega kaffideginum, sem er í dag þann 1. október, fékk Akureyri.net nokkra bæjarbúa til þess að segja frá sínum kaffivenjum.

Þrír tvöfaldir espressó fyrir hádegi

„Góður kaffibolli fyrir mér er þokkalega ristaður expressó með reykkeim og góðu crema ofan á – góðri froðu. Það er sagt að við hér fyrir norðan drekkum ristaðra kaffi en fyrir sunnan, en ég held að það sé að breytast. Sjálfur er ég fyrst og fremst að sækja í koffínið í kaffinu en ég byrjaði samt frekar seint að drekka kaffi. Ég var orðin 35 ára þegar ég fór að drekka kaffi daglega. Á skólaárunum þá vorum við með koffín töflur á heimavistinni, það var hægt að kaupa þær út í apóteki, þannig að þá var engin þörf á að drekka kaffi. Svo bara einhver veginn drakk ég aldrei kaffi fyrr en ég fór að vinna með annað en uppáhellingu. Ég vann lengi á Hótel Kea og þar var kaffið lítið spennandi, uppáhellt í stórum brúsum. En þegar ég fór að pæla meira í kaffi og átta mig á því að það væri virkilega hægt að gera gott kaffi þá fór ég að drekka það. Ég fæ mér alltaf tvöfaldan espressó, yfirleitt þrjá bolla fyrir hádegi og síðan ekki meir. Ég drekk sárasjaldan kaffi heima enda kaffið mun betra á Berlín Akureyri. Á morgnana fer ég yfirleitt beint í vinnuna á Berlín og fljótlega beint í einn tvöfaldan. Heima er ég með hylkjavél vegna þess að annars myndi kaffið bara skemmast því ég laga kaffi svo sjaldan heima.“

Sveinn Sævar Frímannsson, eigandi Berlín Akureyri

 

_ _ _

Besti bolli dagsins er sá fyrsti

„Ég drekk allskonar kaffi og mest í vinnunni. Besti bolli dagsins er sá fyrsti sem er yfirleitt rétt upp úr kl. 8 á morgnana með mínum góðu vinnufélögum í SÍMEY, þá náum við notalegri stund saman yfir bolla áður en vinnudagurinn hefst. Sennilega drekk ég alltof marga kaffibolla á dag, en mest fyrripart dags. Ég reyni að stramma mig af seinni partinn þannig að ég geti nú sofnað á kvöldin. Ég byrjaði að drekka kaffi í prófatíð í háskólanum forðum daga og hef ekki hætt síðan. Uppáhalds bollinn minn er fallegur keramik bolli sem góð vinkona mín, Kristín Bjarnadóttir í Sigluvík, færði mér að gjöf. Ég hef hann hjá mér í vinnunni og drekk úr honum á hverjum degi. Besta kaffið fæ ég hjá Kötu vinkonu, hún hefur einstakt lag á því að útbúa gott kaffi. Þegar ég hugsa út í það núna tengi ég gott kaffi við góða samveru og spjall við vini og vinnufélaga.“

Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Símey

  

Uppáhaldsbolli Ingunnar er keramikbolli sem hún fékk að gjöf. Hún er með hann á vinnustaðnum og drekkur kaffi úr honum daglega.

_ _ _

Eyðilegg kaffið, eins og mamma sagði!

„Ég drekk kaffi alltaf með mjólk og helst með rjóma, eyðilegg kaffið eins og mamma sagði við mig þegar ég var að byrja að drekka kaffi. Ef ég vil gera vel við mig þá fæ ég mér tvöfaldan latte með karamellu. Undanfarið hef ég reyndar verið að prófa svarta bolla, en eingöngu í neyð þegar það hefur ekki verið til mjólk, en ótrúlegt nokk þá hefur það ekki verið svo slæmt. Það er misjafnt hvað ég drekk marga bolla á dag, ég er t.d. örugglega búinn að drekka fimm bolla í dag en suma daga drekk ég ekkert kaffi. Ég kemst alveg af án kaffis, ég fæ engin fráhvörf en ég þekki fólk sem er eins og Zombie áður en það fær skotið sitt. Sem betur fer er ég ekki þar. Fyrir mér er kaffidrykkja félagsleg athöfn, ég drekk meira kaffi þegar ég er innan um fólk og helli sárasjaldan upp á kaffi fyrir mig einan.“

Ívar Helgason, fjöllistamaður og söngleikari

Ívar vill hafa mjólk eða rjóma í kaffinu sínu. Hér er hann á kaffihúsinu Garún.

_ _ _

Hugsa með tilhlökkun til morgunbollans þegar ég fer í háttinn!

„Ég vil hafa kaffið mitt frekar sterkt og með mjólk, alls ekki sykri þó ég sé svakalegur sælkeri, en ef ég fæ súkkulaðimola með þá er dagurinn fullkomnaður. Ég man vel eftir því þegar ég byrjaði að drekka kaffi. Ég var í menntaskóla, 18 ára og var að lesa undir próf. Mig vantaði bara orku og lét mig hafa það að sulla í kaffi til að halda mér við efnið. Mér fannst kaffi ekkert spes þá, enda bara þessi venjulegi uppáhellingur og enginn metnaður settur í að græja það, ég kunni eflaust ekkert á kaffivélina heima heldur. Núorðið drekk ég bara kaffi fram að hádegi til að það haldi ekki fyrir mér vöku á kvöldin, en áður gat ég drukkið það allan daginn. Ég drekk sirka þrjá bolla á venjulegum degi en í góðum félagsskap, með góðum vinkonum geta þeir sko orðið fleiri. Verst er að maðurinn minn drekkur ekki kaffi svo það er ekki mikið um kósý kaffispjall með honum a.m.k. Það er bara eitthvað svo notalegt við þessa athöfn og fyrsti bollinn á morgnana hann er bara æði. Ég hugsa stundum til hans með tilhlökkun þegar ég fer í háttinn á kvöldin. Svo verður kaffið að vera í fallegum bolla annars er alveg eins gott að sleppa því. Mér finnst líka geggjað ef ég næ að setjast ein niður, snemma að morgni áður en allir vakna á heimilinu, með minn bolla við góðan útsýnisglugga eða úti í náttúrunni, það er eitthvað við það.”

Karen Ingimarsdóttir, stöðvarstjóri World Class Akureyri

Kaffidrykkja er notaleg athöfn í huga Karenar. Hún drekkur að meðaltali þrjá bolla á dag.

_ _ _

Mjólk heima en ekki í vinnunni

„Ég set mjólk út í kaffið heima hjá mér, en ekki í vinnunni. Kannski er ástæðan sú að heima er uppáhellt á gamla mátann en í vinnunni er kaffivél og þar finnst mér mjólkin óþörf. Venjulega er fyrsta morgunverkið að hella upp á kaffi, þannig að ég byrja sem sagt daginn með því að fá mér kaffi. Síðan drekk ég kannski tvo bolla í vinnunni en það kemur sárasjaldan fyrir að ég drekki kaffi á kvöldin, þá á ég erfitt með að sofna. Í vinnunni er ég með þennan forláta kaffibolla sem er merktur með stóru K. Bollan fékk ég að gjöf þegar ég hætti störfum á N4 og fór sem sagt með hann yfir á nýjan vinnustað. Mér þykir vænt um þennan bolla.”

Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja

Karl Eskil með uppáhaldsbollann sinn sem hann fékk sem kveðjugjöf frá N4.

_ _ _

Lattélepjandi 600 Akureyri gaur

„Ég og kaffið höfum átt samleið síðan á Ölduslóðinni í Hafnarfirði snemma á áttunda áratugnum þar sem við amma Hólmfríður sátum við eldhúsborðið hennar, spiluðum á spil og drukkum kaffi. Tja, hún drakk kaffi og ég fékk að dýfa sykurmola í bollann hennar og soga í mig kaffið þangað til molinn hrundi saman í munninum. Þegar ég fór löngu seinna að drekka kaffi á eigin spýtur tókst mér reyndar aldrei aftur að ná tökum á sykruðu kaffi en mér finnst mjólkin alveg ómissandi, ég er svona lattélepjandi 600 Akureyri gaur. Espressovélin er þarfasti þjónninn, þegar ég vinn heima servérar hún gjarnan einn latté fyrir klukkan átta og kannski 3-4 cappuchino þangað til deginum lýkur hjá henni um fjögurleytið. Uppáhalds kaffibollinn minn er með áletraðri áminningu um mikilvægi ævistarfsins: Verkfall félagsfræðinga!!!! Hnípin þjóð í vanda!!"

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri

Þóroddur með uppáhaldsbollann sinn.