Fara í efni
Mannlíf

KA strákarnir fengu gullið á Partille Cup

KA-strákarnir fagna eftir að þeir tóku á móti sigurlaununum í Gautaborg í dag. Mynd af Facebook síðu Partille Cup.

KA varð í dag Partille Cup meistari í handknattleik karla í 16 ára flokki - eldra ári 4. aldursflokks,  eftir 15:10 sigur á Önnereds HK frá Svíþjóð í úrslitaleik. Partille Cup, sem fer fram í Gautaborg, er fjölmennasta handboltamót fyrir ungmenni sem haldið er í heiminum,  eins og fram kom á Akureyri.net fyrr í dag.

Glæsilegur árangur hjá KA-liðinu sem hefur haft talsverða yfirburði hér heima undanfarin misseri og varð Íslands-, deildar og bikarmeistari á síðasta keppnistímabili. Með sigrinum í dag er KA komið í hóp örfárra íslenskra félagsliða sem í gegnum tíðina hefur unnið til gullverðlauna í sínum aldursflokki á Partille Cup, að því er segir á handboltavef Íslands, handbolti.is.

„Stefán Árnason þjálfari piltanna, sem nú er að kveðja KA og flytja suður, var að vinna Partille cup í annað sinn. Hann stýrði einnig liði Selfoss sem vann sinn aldursflokk á mótinu fyrir nokkrum árum. Meðal leikmanna í því liði voru Elvar Örn Jónsson og Ómar Ingi Magnússon, atvinnumenn í Þýskalandi í dag og landsliðsmenn,“ segir handbolti.is í dag.

„Í undanúrslitum vann KA-liðið danskt félagslið, Team Favrskov Handboll. Mun vera svo langt síðan að danska liðið tapaði síðast kappleik að menn rekur vart minni til þesss, eftir því sem handbolti.is hefur fregnað.“

Stefán Árnason sem þjálfar KA-strákana í 4. flokki ásamt Heimi Árnasyni.