Fara í efni
Mannlíf

KA-strákarnir áfram á sigurbraut

Tvíburarnir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir hafa reynst Keflvíkingum erfiðir í sumar: Nökkvi gerði tvö mörk í fyrri leiknum og Þorri eitt og í dag gerði Nökkvi síðasta markið eftir sendingu Þorra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu þriðja leikinn í röð þegar þeir sóttu Keflvíkinga heim í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Eftir að heimamenn tóku forystuna snemma sigraði KA 3:1, er í þriðja sæti sem fyrr og komið með 27 stig.

Keflvíkingar náðu forystunni strax á áttundu mínútu en ekki leið á löngu þar til þeir urðu fyrir því áfalli að markvörður liðsins, Sindri Kristinn Ólafsson, var rekinn af velli eftir að hann braut á Ásgeiri Sigurgeirssyni sem komst inn fyrir vörnina.

KA-menn þjörmuðu að andstæðingum sínum í kjölfarið, heimamenn ógnuðu reyndar líka, eftir hættulegar skyndisóknir, en mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik.

Bæði lið fengu góð tækifæri til að skora í seinni hálfleik en ekkert gekk þar til stundarfjórðungur var eftir að KA-maðurinn Rodri kom boltanum í netið með laglegu skoti úr miðjum teig. Nokkru síðar fékk Ásgeir Sigurgeirsson kjörið tækifæri til að koma KA yfir en tókst ekki.

Þrátt fyrir að vera einum færri jafn lengi og raun ber vitni gáfu Keflvíkingar lítið eftir og Jajalo markvörður KA kom í veg fyrir að þeir næðu forystunni á ný þegar lítið var eftir; varði þá mjög vel í tvígang. Það var svo þegar komið var í uppbótartíma að Jakob Snær Árnason, sem leysti Ásgeir fyrirliða af 10 mínútum áður, skoraði aðeins fáeinum sekúndum eftir að heimamenn áttu hornspyrnu! KA-menn náðu boltanum, brunuðu fram og Jakob skoraði með skoti úr miðjum teig. Fáeinum andartökum síðar gulltryggði Nökkvi Þeyr svo sigurinn þegar hann skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Þorra Mar bróður síns.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna