Fara í efni
Mannlíf

KA-menn töpuðu fjórða leiknum í röð

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæsti maður KA í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA tapaði fjórða leiknum í röð í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni, þegar liðið mætti FH í Hafnarfirði í kvöld. Eftir að staðan var 12:9 í hálfleik fyrir FH sigruðu Hafnfirðingarnir 28:21.

KA-menn eru í miklum mótvindi þessa stundina og hafa aðeins fjögur stig eftir sex leiki. Allir vita að meira býr í flestum leikmönnum en þeir hafa sýnt undanfarið; varnarleikurinn var í lagi fyrri hluta leiksins í kvöld en sóknarleikurinn varð aldrei sannfærandi; KA-menn spila hægt, ná ekki að opna varnir andstæðinganna almennilega og til að bæta gráu ofan á svart er skotnýtingin fjarri því að vera góð. Í kvöld náðu markverðirnir sér ekki á strik frekar en aðrir, vörðu samtals aðeins sjö skot.

Koma tímar og koma ráð. Framundan er hlé á deildinni vegna landsleikja, KA fær Fram í heimsókn eftir tæpar tvær vikur og spennandi verður að sjá hvort Jónatan þjálfari Magnússon og hans menn hafi náð að stilla strengi betur saman þá.

Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 8 (5 víti), Einar Birgir Stefánsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson, Skarphéðinn Ívar Einarsson og Einar Rafn Eiðsson 2 hver, Arnór Ísak Haddsson, Pætur Mikkjalsson, Allan Nordberg og Jóhann Geir Sævarsson 1 hver.

Nicholas Satchwell varði 7 skot og Bruno Bernat 1.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.