Fara í efni
Mannlíf

KA-menn taka á móti Völsurum í dag

Nökkvi Þeyr Þórisson í bikarleiknum gegn Fram á dögunum þar sem hann gerði þrennu. Nökkvi er markahæstur KA-manna á Íslandsmótinu í sumar, hefur gert fimm mörk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA fær Val í heimsókn í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikur liðanna hefst klukkan 18.00 á Greifavellinum hinum seinni, nýja gervigrasvellinum við KA-heimilið.

Með sigri í dag fara KA-menn upp fyrir Valsara í deildinni; Valsliðið er sem stendur með 19 stig í fjórða sæti en KA er með 17 stig í því fimmta. Bæði eiga 10 leiki að baki.

Valur sigraði Leikni 2:1 í síðustu umferð og þar á undan lagði Valur topplið Breiðabliks að velli, 3:2, á heimavelli. Það er eini tapleikur Breiðabliks í sumar.

KA tapaði hins vegar fyrir Breiðabliki, 4:1, í síðustu umferð í Kópavogi og gerði jafntefli, 2:2, við Fram í leiknum þar á undan, vígsluleik nýja  Greifavallarins.