Fara í efni
Mannlíf

KA-menn sækja topplið Breiðabliks heim

Hallgrímur Mar Steingrímsson og félagar í KA glíma við leikmenn Breiðabliks í Kópavogi í kvöld. Hér er Hallgrímur í leiknum gegn Fram á dögunum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Breiðablik og KA eigast við í kvöld í Kópavogi í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. KA-menn unnu fimm af fyrstu sex leikjum í deildinni en hafa ekki náð að sigra í síðustu þremur. Þeir eru í fjórða sæti með 17 stig eftir níu leiki.

Blikarnir hafa verið frábærir í sumar; unnu fyrstu átta leikina en töpuðu loks í síðustu umferð, 3:2 fyrir Val. Þeir eru þó vitaskuld í efsta sæti deildarinnar sem fyrr með 24 stig að loknum níu leikjum. Íslands- og bikarmeistarar Víkings eru í öðru sæti, fimm stigum á eftir Breiðabliki, en hafa þó leikið einum leik meira.

Leikurinn í Kópavogi hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.