Fara í efni
Mannlíf

KA-menn höfðu betur: „Velkomnir á Brekkuna“

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var frábær í KA-liðinu; gerði 14 mörk og átti sjö stoðsendingar. Hér reyna Þórður Tandri Ágústsson og Hákon Ingi Halldórsson að stöðva hann í kvöld. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn sigruðu Þórsara með fjögurra marka mun í kvöld, 32:28, þegar Akureyrarliðin mættust í fyrsta skipti í fjögur ár í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta.

Spenna var mikil í aðdraganda leiksins og stemningin hreinlega frábær í troðfullu KA-heimilinu. Þannig er andrúmsloftið jafnan þegar Akureyrarfélögin eigast við og gleðin mikil og áberandi í þeim hópi sem stendur upp sigurvegari. Þekktur er söngur Þórsara til andstæðinga sinna á kappleikjum: „Velkomnir í Þorpið“, en glaðir stuðningsmenn KA snéru því upp á gesti sína í kvöld og trölluðu hástöfum þegar langt var liðið á leikinn og niðurstaðan orðin ljós. „Velkomnir á Brekkuna“ ómaði þá um KA-heimilið.

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn, Þórsarar lengi skrefi á undan en KA hafði eins marks forystu í hálfleik, 13:12. KA-strákarnir byrjuðu svo seinni hálfleikinn miklu betur, komust fljótlega fimm mörkum yfir og eftir það voru Þórsarar í eltingaleik; þeir neituðu vitaskuld að gefast upp þótt á móti blési, hart var barist allan tímann, en munurinn varð aldrei minni en þrjú mörk.

Að 11 leikjum loknum eru KA-menn með 14 stig í þriðja sæti (eins og Valur sem á einn leik til góða) en Þór í 10. sæti með sjö stig.

Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 14 (þar af 7 víti), Logi Gautason 6, Morten Linder 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Giorgi Arvelodi 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Arnór Ísak Haddsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 17, Guðmundur Helgi Imsland 2 víti.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 9, Oddur Gretarsson 7 (þar af 5 víti), Þormar Sigurðsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Hafþór Már Vignisson 2, Hákon Ingi Halldórsson 2, Patrekur Guðni Þorbergsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1.

Varin skot: Nikola Radivanovic 6, Patrekur Guðni Þorbergsson 5.

Nánar á morgun

KA-menn fögnuðu að vonum innilega eftir sigurinn í kvöld.