Fara í efni
Mannlíf

KA-menn geta komist upp í fjórða sæti í dag

Ásgeir Sigurgeirsson og Elfar Árni Aðalsteinsson fagna marki þess síðarnefnda gegn KR í sumar. Ásgeir hefur gert fimm mörk á leiktíðinni og Elfar þrjú. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA sækir Leikni heim í dag í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. Leikurinn hefst klukkan 17.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

KA er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig eftir 12 leiki en Leiknir er aðeins einu sæti neðar, með 17 stig að loknum 13 leikjum. Með sigri í dag komast KA-menn upp í fjórða sæti, upp fyrir KR, sem er með 22 stig úr 13 leikjum.

KA lagði HK að velli, 2:0, á Akureyrarvelli (Greifavellinum) í síðustu umferð og Leiknir sigraði Stjörnuna, einnig 2:0. Leiknismönnum hefur gengið afar vel á heimavelli í sumar, þeir hafa unnið fimm leiki, gert eitt jafntefli og aðeins tapað einum leik. Að sama skapi hefur KA-mönnum gengur prýðilega á útivelli; þar hafa þeir fagnað fjórum sigrum, gert tvö jafntefli og tapað einum leik.