Fara í efni
Mannlíf

KA-menn færu upp fyrir Blika með sigri

Elfar Árni Aðalsteinsson og Ásgeir Sigurgeirsson skoruðu sitt hvort markið, og Darko Bulatovic eitt,…
Elfar Árni Aðalsteinsson og Ásgeir Sigurgeirsson skoruðu sitt hvort markið, og Darko Bulatovic eitt, þegar KA sigraði Breiðablik síðast (3:1) í efstu deild Íslandsmótsins; í Kópavogi 1. maí 2017. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Tveir mjög mikilvægir leikir gegn Breiðabliki eru framundan hjá KA í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Sá fyrri er í dag í Kópavogi og liðin mætast aftur á Akureyri á miðvikudaginn.

  • Leikur dagsins átti að hefjast 16.15 en honum hefur verið seinkað til kukkan 18.00 vegna bilunar í flugvél sem átti að flytja KA-menn suður. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Breiðablik er með eitt skemmtilegasta lið landsins. Grænklæddir lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar eru illviðráðanlegir á góðum degi svo verkefni KA-manna er sannarlega verðugt, en skemmtilegt. Ástæða þess að liðin mætast með svo stuttu millibili er að leikurinn í Kópavogi var upphaflega á dagskrá fyrr í sumar en var seinkað vegna þátttöku Breiðabliks í Evrópukeppni.

Valsmenn eru á toppi deildarinnar með 36 stig og Víkingar eru með 33. Bæði lið hafa lokið 17 leikjum.

Breiðablik er með 32 stig og KA 30 – bæði eftir 16 leiki. Sigri Breiðablik í dag verður liðið því aðeins einu stigi á eftir Val en vinni KA-menn fara þeir upp að hlið Víkinga í annað sætið.

Svo skemmtilega vill til að Víkingur og Valur mætast á morgun og KA og Breiðablik aftur á miðvikudaginn sem fyrr segir. Næstu dagar gætu því skipt miklu máli í baráttunni á toppnum.

  • KA og Breiðablik hafa mæst átta sinnum í efstu deild Íslandsmótsins síðan 2017, þegar KA-menn komust í deild þeirra bestu á ný. Blikar hafa yfirhöndina í þeim viðureignum; hafa sigrað í fjórum leikjum, þremur hefur lokið með jafntefli og KA-menn hafa unnið einn.

2020

KA – Breiðablík 2:2
Brynjar Ingi Bjarnason og Guðmundur Steinn Hafsteinsson gerðu mörk KA í ótrúlegum leik. Guðmundur kom KA yfir á 90. mínútu þegar hann skoraði úr víti en það dugði ekki til því Thomas Mikkelsen jafnaði fyrir gestina þegar tvær mín. voru liðnar af uppbótartíma – einnig úr vítaspyrnu. 

Breiðablik – KA 1:1
Seinni leikur liðanna í fyrrasumar. Sveinn Margeir Hauksson kom KA yfir á 18. mín. Það var fyrsta mark hans fyrir KA á Íslandsmótinu og raunar það eina til þessa. Viktor Karl Einarsson jafnaði á 53. mín. Arnar Grétarsson var tekinn við þjálfun KA af Óla Stefáni Flóventssyni og þetta var fyrsti leikur hans sem þjálfara gegn æskufélagi sínu, sem hann þjálfaði einmitt frá 2015 þar til snemma sumars 2017.

2019

KA – Breiðablik 0:1 

Breiðablik – KA 4:0

2018

KA – Breiðablik 0:0

Breiðablik – KA 4:0

2017

Breiðablik – KA 1:3
Darko Bulatovic, Elfar Árni Aðalsteinsson og Ásgeir Sigurgeirsson skoruðu fyrir KA. Arnar Grétarsson, núverandi þjálfari KA, var við stjórnvölinn hjá Breiðabliki.

KA – Breiðablik 2:4
Emil Lyng gerði bæði mörk KA. Þetta var seinni leikur liðanna um sumarið. Milos Milojevic var tekinn við af Arnari sem þjálfari Breiðabliks.